Cameron ræddi „stórkostlega spillt“ ríki við drottninguna

Elísabet II Englandsdrottning ræddi við David Cameron, forsætisráðherra í Buckingham …
Elísabet II Englandsdrottning ræddi við David Cameron, forsætisráðherra í Buckingham höll í London í dag. AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, lýsti Nígeríu og Afganistan sem „stórkostlega spilltum“ ríkjum í samtali við Elísabetu Englandsdrottningu í Buckingham höll fyrr í dag. Ummælin komu í kjölfar samtals þeirra um alþjóðlega ráðstefnu gegn spillingu sem hefst í London á fimmtudag.

Orð forsætisráðherrans náðust á myndband af frétta- og myndatökumönnum frá BBC, og ekki er ljóst hvort Cameron gerði sér grein fyrir að ummæli hans væru tekin upp.

„Það er von á leiðtogum frá stórkostlega spilltum ríkjum hingað til Bretlands… Nígeríu og Afganistan, sem eru líklega tvö mest spilltu ríki í heimi,“ sagði Cameron.

Erkibiskupinn af Cantebury kom þá með innlegg í samtalið. „En þessi tiltekni forseti er ekki spilltur, hann er virkilega að reyna,“ sagði biskupinn, áður en John Bercow, forseti neðri deildar breska þingsins skaut inn í spurningunni hvort leiðtogarnir greiddu kostnað tengdan komu sinni ekki sjálfir?

Breska ríkisstjórnin stendur fyrir ráðstefnunni sem hefst á fimmtudag. Markmið hennar er að virkja hnattræn viðbrögð við spillingu víða um heim.

Hér má sjá upptöku af ummælum forsætisráðherrans á vef BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert