Duterte sigurvegari kosninganna

Rodrigo Duterte er næsti forseti Filippseyja
Rodrigo Duterte er næsti forseti Filippseyja AFP

Rodrigo „Digong“ Duterte er sigurvegari forsetakosninganna í Filippseyjum eftir að andstæðingar hans drógu sig í hlé. Opinber úrslit eru ekki enn ljós en helsti andstæðingur Duterte, Mar Roxas, viðurkenndi ósigur sinn eftir að skoðanakannanir sýndu óvinnandi forskot Duterte.

Duterte sagðist taka við umboðinu „með auðmýkt“ en hann er 71 árs gamall. Viðhorf Duterte og ummæli hafa vakið athygli en hann hefur lagt áherslu á refsingu glæpamanna.

Duterte er borgarstjóri í Davao sem var eitt sinn þekkt fyrir háa glæpatíðni. Eftir 22 ár sem borgastjóri hefur hann hlotið viðurnefnið „refsarinn“ og þykir það endurspegla viðhorf hans til glæpastarfsemi.

Alþjóðleg mannréttindasamtök hafa varað við Duterte og haldið því fram að hann hafi leyft aftökusveitum að drepa mörg hundruð meinta glæpamenn í Davao.  

Þá hafa andstæðingar Duterte hafa líkt honum við böðul og sagt að hann myndi kalla fram hrylling í landinu. Þrátt fyrir það sigraði hann kosningarnar með glæsibrag en samkvæmt könnunum hlaut hann næstum því tvisvar sinnum fleiri atkvæði en helstu andstæðingar hans.

Það þykir ljóst að loforð hans um að útrýma glæpamönnum og spilltum embættismönnum heilluðu kjósendur sem segjast margir ekki hafa treyst ríkisstjórninni í  langan tíma.

Í kosningunum á sunnudaginn var metkjörsókn þar sem rúmlega 81% landsmanna mættu á kjörstað. Á sama tíma og forsetakosningarnar stóðu yfir var einnig kosið til þings og í sveitastjórnir.

Fyrri frétt mbl.is: „Refsarinn“ líklegur sigurvegari

Fyrri frétt mbl.is: Lofar blóðugri forsetatíð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert