Myndi gera undantekningu fyrir Khan

Donald Trump
Donald Trump AFP

Auðjöfurinn Donald Trump, sem vonast nú eftir því að verða næsti forseti Bandaríkjanna, myndi gera undantekningu á tillögðu banni sínu við því að múslímar komi til Bandaríkjanna fyrir nýkjörinn borgarstjóra Lundúna.

Í kjölfar hryðjuverkaárása í Evrópu síðustu misseri hefur Trump lagt til að múslimum verði bannað að koma til Bandaríkjanna og fengið við því blendin viðbrögð. Músliminn Sadiq Khan, sem var kjörinn borgarstjóri Lundúna í síðustu viku hafði lýst yfir áhyggjum af því að geta ekki farið til Bandaríkjanna verði Trump kjörinn.

„Það verða alltaf undantekningar,“ sagði Trump aðspurður um áhyggjur borgarstjórans. Hugmyndir Trump um bannið hafa verið harðlegar gagnrýndar en þrátt fyrir það hefur hann staðið við þær og haldið því fram að þær yrðu settar til þess að tryggja öryggi Bandaríkjamanna.

Trump sagðist þó „glaður“ að Khan væri orðinn borgarstjóri. „Ef hann stendur sig vel, ef hann stendur sig frábærlega, þá væri það frábært,“ bætti hann við.

Khan er sonur innflytjenda frá Pakistan og er fyrsti borgarstjóri Lundúna sem er múslimi.

„Ég vil fara til Bandaríkjanna til að hitta og vinna með bandarískum borgarstjórum,“ sagði Khan í samtali við tímaritið Time. „Ef Donald Trump verður forseti get ég ekki farið þangað útaf trú minni.“

Bætti Khan þó við að hann væri viss um að pólitísk nálgun Trump myndi ekki halda velli í Bandaríkjunum.

Frétt BBC.

Sadiq Khan vill fara til Bandaríkjanna.
Sadiq Khan vill fara til Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert