Fregnir þess efnis að maðurinn sem sigraði í forsetakosningunum á Filippseyjum gæti mögulega bannað áfengi á almenningsstöðum hefur vakið mikla reiði í landinu. Þó eru sumir sem segja reglur sem þessar einmitt ástæðu þess að hann var kjörinn.
Rodrigo Duterte sem er þekktur fyrir sterkar skoðanir sínar á glæpastarfsemi og refsingum, hefur lýst yfir sigri eftir kosningarnar á sunnudaginn þar sem hann var með mikið forskot. Opinberlegar niðurstöður kosninganna hafa þó ekki verið birtar.
Talsmaður Duterte hefur sagt að nýi forsetinn myndi koma á útgöngubanni á landsvísu á börn og mögulega banna áfengi á almenningsstöðum.
Duterte hefur þakkað hörðum skoðunum sínum á lögum og reglu í landinu fyrir að hafa verið kjörinn. Hann var í 22 ár bæjarstjóri Davao en bærinn var eitt sinn þekktur fyrir lögleysu. Sem bæjarstjóri hlaut Duterte viðurnefnið „refsarinn“.
Meðal þeirra aðgerða sem Duterte kom í gegn í Davao var að banna sölu áfengis frá miðnætti til klukkan átta á morgnana.
Talsmaður Duterte, Peter Lavina, sagði við fjölmiðla í Davao, að það bann gæti verið sett í öllu landinu.
„Duterte mun koma á útivistarbanni sem snýr að fylgdarlausum börnum og gæti jafnframt bannað áfengi á almenningsstöðum. Það fer þó eftir viðræðum og mögulegum lagabreytingum,“ sagði Lavina. Hann neitaði því að þær breytingar myndu neita fólki um frelsi og að almenningur gæti enn drukkið heima hjá sér.
Málið hefur verið rætt meðal Filippseyinga á samfélagsmiðlum. „Til allra þeirra sem kusu Duterte, ég vona að þið séuð tilbúin til þess að minnka reykingar, drekka minna áfengi, fara snemma heim og flokka rusl,“ skrifaði einn háskólanemi á Twitter.
„Viltu einræðisherra? Þú fékkst hann,“ sagði Angelica Mercurio á Twitter.
Sumir fögnuðu þó boðuðum reglum nýja forsetans. „Færri glæpir, færri slys og færri „pokpoks“,“ skrifaði Rojun Angeles en „pokpok“ er slangur notað um vændiskonur í landinu.
Anzel Deschanel sagðist jafnframt vera orðinn þreyttur á glæpamönnum og vill að glæpir yrðu stöðvaðir. „Ég fagna þessu banni. Svo þurfa börn líka að vera inni á nóttunni vegna öryggis þeirra. Betri Filippseyjar!“
Duterte er fæddur 1945 og er því 71 árs. Hann hefur tvisvar verið kvæntur en er nú einhleypur. Hann segist þó eiga nokkrar kærustur.
Duterte er menntaður lögfræðingur og hefur einnig setið á þingi. Hann er þekktur fyrir að berjast gegn glæpum og spillingu. Þá hafa ummæli hans einnig vakið athygli en hann hefur m.a. sagt að hann muni drepa þúsundir glæpamanna án réttarhalda.