„Ég trúi systur minni“

Mia, fyrrverandi eiginkona Woody Allen, ásamt honum og börnum þeirra, …
Mia, fyrrverandi eiginkona Woody Allen, ásamt honum og börnum þeirra, Ronan (t.h.) og Dylan (t.v.) árið 1988. Ljósmynd/The Hollywood Reporter

„Þöggun af þessu tagi er ekki bara röng. Hún er hættuleg. Hún sendir skilaboð til þolenda um að það sé ekki þess virði að stíga fram. Hún sendir skilaboð um það hver við erum sem samfélag, hverju við munum horfa framhjá, hverja við munum hunsa, hver skiptir máli og hver ekki.“

Þetta skrifar Ronan Farrow, sonur Woody Allen, í pistli á vef The Hollywood Reporter, þar sem hann gagnrýnir kvikmyndaiðnaðinn fyrir að taka ekki afstöðu gegn föður sínum, sem sakaður hefur verið um kynferðisofbeldi gegn dóttur sinni.

Dylan Farrow, dóttir Allen, birti pistil í The New York Times árið 2014 þar sem hún sagði sögu sína og lýsti því hvernig faðir hennar beitti hana kynferðislegu ofbeldi þegar hún var barn. Bróðir hennar stígur nú í fyrsta skipti fram til að taka opinbera afstöðu með systur sinni, gegn föður sínum.

Tilefnið er það að í gær opnaði kvikmyndahátíðin í Cannes með nýrri Woody Allen mynd, og segir Farrow í greininni að hinar óspurðu spurningar sem Allen mun ekki fá á hátíðinni séu hættuleg tegund af þöggun.

Afleiðingar þöggunar gríðarlega alvarlegar

„Það verða blaðamannafundir og faðir minn mun ganga rauða dregilinn með eiginkonu sinni (systur minni) [innsk. blm. Soon-Yi Previn, sem Mia Farrow fyrrum eiginkona Allen og Andre Previn ættleiddu. Allen og Previn giftust árið 1997]. Hann mun hafa stjörnurnar sér við hlið – Kristen Stewart, Blake Lively, Steve Carell, Jesse Eisenberg. Þau geta treyst á það að fjölmiðlar munu ekki spyrja þau erfiðu spurninganna. Þetta er ekki staður og stund svo það er ekki gert.“

Farrow lýsir því hvernig hann hafi ekki viljað tjá sig um sársaukafulla sögu fjölskyldu sinnar áður þar sem hann taldi það geta haft áhrif á starf sitt og persónu. „Ég grátbað systur mína um að tjá sig ekki meira um þetta mál opinberlega og forðast að tala við fréttamenn. Ég skammast mín fyrir það núna,“ segir hann og bætir við að erfitt sér að horfast í augu við kynferðisofbeldi, svo oft á tíðum sé auðveldara að horfa fram hjá slíkum ásökunum.

Þá segist hann jafnvel hafa hikað við að skrifa greinina í The Hollywood Reporter þar sem hann vissi að það myndi hafa miklar afleiðingar fyrir systur hans, móður hans og hann sjálfan. Þegar hann hafi áttað sig á afleiðingum þöggunar hafi hann hins vegar tvíeflst í því að vilja tjá sig opinberlega. Áhrifin sem það hafi að líta framhjá ásökunum á hendur Woody Allen geti nefnilega haft gríðarlega slæmar afleiðingar fyrir unga þolendur sem þori ekki að stíga fram í ljósi þess að ekki sé tekin afstaða gegn Allen, og þar með gerendum almennt.

„Persónulegt er nákvæmlega það sem þetta er“

„Ég trúi systur minni. Þetta var alltaf satt og það kemur frá bróður sem treysti henni, og jafnvel 5 ára gamall tók eftir óvenjulegri hegðun föður síns í kringum hana: klifrandi upp í rúmið hennar um miðjar nætur og neyðandi hana til að sjúga á sér þumalinn – hegðun sem leiddi til þess að hann þurfti að fara í meðferð þar sem áhersla var lögð á óeðlilega háttsemi hans í kringum börn, áður en ásakanirnar komu fram.“

Þá segist Farrow undrandi yfir því hversu stórt pláss fjölmiðlar gefa Allen og hversu litlu ásakanirnar hafi breytt fyrir starf hans. „Leikarar, þar á meðal sumir sem ég dáist að, halda áfram að bíða í röðum eftir að fá að leika í kvikmyndunum hans. „Þetta er ekki persónulegt,“ sagði einn þeirra við mig eitt sinn. En það særir systur mína í hvert skipti sem einhverjar af hennar hetjum eins og Louis C.K., eða stjarna á hennar aldri eins og Miley Cyrus, vinna með Woody Allen. Persónulegt er nákvæmlega það sem þetta er – fyrir systur mína og konur alls staðar sem hafa haft uppi ásakanir um kynferðisofbeldi sem hafa ekki endað með sakfellingu.“

„Við erum að verða vitni að stórum breytingum í því hvernig við tölum um kynferðisofbeldi. En það þarf meira til svo hægt sé að byggja samfélag þar sem konur eins og systir mín eru ekki lengur ósýnilegar. Nú er tími til að spyrja erfiðra spurninga,“ skrifar hann að lokum.

Ronan Farrow, sonur Woody Allen, tekur afstöðu gegn föður sínum.
Ronan Farrow, sonur Woody Allen, tekur afstöðu gegn föður sínum. Ljósmynd/The Hollywood Reporter
Dóttir Woody Allen steig fram árið 2014 og sakaði hann …
Dóttir Woody Allen steig fram árið 2014 og sakaði hann um kynferðisofbeldi gegn sér þegar hún var barn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert