Ástralskt par sem missti þrjú börn er flugvél Malaysia Airlines, MH17 var skotin niður í Úkraínu í júlí 2014, hefur eignast stúlkubarn.
Anthony Maslin og Marite Norris misstu börnin sín þrjú, Mo, Evie og Otis. Einnig var faðir Norris um borð. Allir sem voru í flugvélinni létust, 298 manns. Þar af voru áttatíu börn.
En nú hefur hamingjan heimsótt Maslin og Norris og segja þau fæðingu Violet May „undraverða gjöf“, að því er fram kemur í frétt BBC.
„Fæðing Violet er vitnisburður um þá trú okkar að ástin er sterkari en hatrið,“ sagði parið í yfirlýsingu. „Þjáningin er enn mikil en Violet, og sú trú okkar að öll börnin okkar fjögur séu alltaf með okkur, færir okkur ljós í myrkrinu.“
Vitna hjónin svo í Martin Luther King sem sagði: Myrkrið getur fælt myrkrið á braut, aðeins ljósið getur það. Hatur getur ekki fælt hatrið í burtu, aðeins ástin getur það.“
Flugvél Malaysia Airlines var skotin niður er hún flaug yfir átakasvæði í austurhluta Úkraínu. Hún var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur.
Maslin og Norris höfðu orðið eftir í Amsterdam en börnin þeirra þrjú, sem voru á aldrinum 8-12 ára, voru á leið til Ástralíu ásamt afa sínum.