George Zimmerman, sem skaut óvopnaðan ungling til bana í Flórída ríki Bandaríkjanna árið 2012 ætlar nú að selja byssuna sem hann notaði við að drepa unglinginn á uppboði. Vonast hann til þess að fá að minnsta kosti 5.000 Bandaríkjadali fyrir byssuna eða jafnvirði 615.000 íslenskra króna.
Í lýsingu sinni á vopninu segir hann byssuna sögulega en uppboðið hefst í dag.
„Byssan sem er til sölu notaði ég til þess að bjarga lífi mínu frá hrottafenginni árás Trayvon Martin þann 26. febrúar 2012. Margir hafa lýst yfir áhuga á að eiga og sýna byssuna, m.a. Smithsonian safnið í Washington D.C. Þessi byssa er hluti af sögu Bandaríkjanna,“ skrifaði Zimmerman.
Heimurinn gapti þegar að Zimmerman var sýknaður af morðákærum vegna málsins árið 2013 og vakti málið gífurlega reiði. Zimmerman segist aðeins nýlega hafa fengið byssuna til baka frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna sem hélt henni eftir réttarhöldin.
Skrifar Zimmerman á netið að hluti ágóðans af sölunni fari í herferð gegn „ofbeldi gagnvart lögreglumönnum“ og aðgerðir gegn baráttu Hillary Clinton gegn byssueign.
Trayvon Martin var aðeins sautján ára gamall þegar hann lést skammt frá heimili ættingja sinna í afgirtu hverfi í Sanford í Flórída. Zimmerman starfaði sem sjálfboðaliði í nágrannavörslu á svæðinu og hringdi í neyðarlínuna þegar hann sá drenginn. Honum var sagt að ekki nálgast Martin en gerði það samt.
Zimmerman ögraði og réðst að unglingnum sem var ekki með neitt á sér nema nammi og ávaxtasafa sem hann hafði keypt sér. Þrátt fyrir það skaut Zimmerman drenginn til bana og sagði að um sjálfsvörn hefði verið að ræða.
Það tók sex vikur af stöðugum mótmælum til þess að yfirvöld í Flórída rannsökuðu málið. Zimmerman var síðan ákærður af sérstökum saksóknara sem var tilnefndur af ríkisstjóra Flórída. Þrátt fyrir það var hann eins og fyrr segir sýknaður.
Zimmerman sagði í samtali við fjölmiðla í gær ónæmur fyrir gagnrýni þeirra sem segja það ekki rétt að græða á vopninu. „Ég er frjáls Bandaríkjamaður og get gert það sem ég vil við eigur mínar.“