Dilma Rousseff naut gríðarlegra vinsælda þegar hún tók við embætti forseta Brasilíu árið 2011, fyrst kvenna. Hún var fyrrverandi uppreisnarmaður, pyntuð og beitt kynferðislegu ofbeldi í fangelsi, og kleif metorðastigann innan Verkamannaflokksins áður en hún var útnefnd forsetaefni flokksins fyrir kosningarnar 2010.
Þegar Rousseff var endurkjörin voru aðstæður hins vegar breyttar og nú stendur hún andspænis því að verða svipt embættinu, í ferli þar sem einsýnt er að pólitískir hagsmunir munu ráða för miklu heldur en réttlæti.
Efri deild brasilíska þingsins samþykkti í dag að víkja forsetanum tímabundið úr embætti og rétta yfir honum, en Rousseff hefur verið sökuð um að hafa tekið lán hjá bönkum undir stjórn hins opinbera til að fegra ríkisbókhaldið og um að hafa gert breytingar á fjárlögum ríkisins án aðkomu þingsins.
Þeir sem þekkja til Rousseff segja fall hennar m.a. mega rekja til þess hversu erfitt hún á með að ná til þjóðarinnar og miðla málum á vettvangi stjórnmálanna. Þetta rekja þeir til skapgerðar hennar en baráttuandinn hefur komið Rousseff vel og enn segist hún staðráðin í því að fara hvergi.
Það er ekkert launungarmál að trúverðugleiki andstæðinga forsetans er af skornum skammti. Það verða þingmenn efri deildar þingsins sem munu kveða dóm yfir Rousseff, en margir þeirra eru grunaðir um spillingu og verri brot en forsetinn hefur verið sakaður um.
Samkvæmt Guardian hafa 33 af 81 þingmanni efri deildarinnar annaðhvort verið ákærðir eða eru undir rannsókn og þá hafa sumir þegar hlotið dóm.
Varaforsetinn Michel Temer, sem sleit samstarfi við Verkamannaflokks Rousseff í mars sl., hefur sjálfur komið við sögu í vitnisburði nokkurra grunuðu í spillingarmáli tengdu olíufyrirtækinu Petrobas, sem er í ríkiseigu.
Temer tekur við völdum á meðan málareksturinn gegn Rousseff stendur yfir, en hann er sagður hafa þegar valið í ríkisstjórn; hún verður eingöngu skipuð körlum og margir þeirra eru sagðir tengjast spillingarmálum í rannsókn.
Stuðningsmenn Rousseff segja aðförina gegn forsetanum tilraun hinnar gömlu elítu til að komast aftur til valda og skera niður útgjöld ríkisins til velferðarmála.
Verulega hefur fjarað undan efnahag Brasilíu en vandinn er að hluta heimatilbúinn, ekki síst vegna spillingarinnar, sem Deltan Dallagnol segir kerfisbundna. Dallagnol fer fyrir svokallaðri Lava Jato-rannsókn - Lava Jato þýðir „bílaþvottur“ - og segir spillinguna hafa dreift úr sér líkt og krabbamein.
Um er að ræða rannsókn sem hófst vegna peningaþvottar á bílaþvottastöð en hún hefur stækkað gríðarlega að umfangi og beinist nú m.a. að fyrrnefndu Petrobas. Grunur leikur á um að Petrobas hafi gert samninga við verktakafyrirtæki þar sem ofgreitt var fyrir keypta þjónustu, en að hluti „ofgreiðslunnar“ hafi m.a. endað í vasa stjórnenda Petrobas og í kosningasjóðum stjórnmálamanna.
Meðal þeirra sem eru grunaðir um að tengjast hneykslinu eru þekktir viðskiptajöfrar og fleiri en 70 stjórnmálamenn, þeirra á meðal Luiz Inacio Lula de Silva, fyrrverandi forseti og lærifaðir Rousseff.
En brasilíska hagkerfið glímir við fleiri vandamál. Þar er ekki síst að nefna verðlækkanir á olíu og minnkandi eftirspurn, m.a. í Kína, en Brasilía flytur m.a. út kaffi, sykur, tóbak, járn og soja. Verðbólga hefur aukist, fjárfesting dregist saman og kreppudraugurinn sveimar yfir.
Erfitt er að sjá hvar brasilíska þjóðarskútan ætlar að sækja byr í seglinn í þeim pólitíska óstöðugleika sem nú ríkir í landinu. Því er ekki von nema sumir bindi vonir við breytingar í brúnni, en Temer hefur tekist að höfða til atvinnulífsins og hægri manna með loforðum um aðhald í ríkisfjármálum og einkavæðingu.
Sumir sérfræðingar segja hann geta komið á stöðugleika, en aðrir að brotthvarf kjörins forseta við þessar kringumstæður sé ekki stöðugur grunur að byggja á. Sjálf hefur Rousseff, og stuðningsmenn hennar, talað um valdarán.
Rousseff hefur verið vikið úr starfi til 8. nóvember nk., í 180 daga, en réttarhöldunum yfir henni verður að ljúka fyrir þann tíma. Þangað til heldur hún titlinum og aðsetri forseta, en verður að tæma skrifstofu embættisins.
Ólíklegt þykir að Rousseff eigi afturkvæmt þar sem Temer hefur nú allt vald í hendi sér, og þá þykja einnig litlar líkur á því að hún verði viðstödd setningu Ólympíuleikanna í ágúst. Kannanir benda til þess að 70% þjóðarinnar vilji ganga til kosninga, en tíminn verður að leiða í ljós hvort þeim verður að ósk sinni.