„Ég hef aldrei framið glæp“

Rousseff vinkar stuðningsmönnum sínum fyrir utan forsetahöllina í gær.
Rousseff vinkar stuðningsmönnum sínum fyrir utan forsetahöllina í gær. AFP

Dilma Rousseff, sem var vikið úr embætti forseta Brasilíu í gær, ávarpaði stuðningsmenn sína þegar hún yfirgaf forsetahöllina. Er talið líklegt að gærdagurinn hafi markað endalok stjórnmálaferils Rousseff en hún er sökuð um að hafa látið falsa rík­is­reikn­inga í því skyni að leyna vax­andi fjár­laga­halla í aðdrag­anda end­ur­kjörs henn­ar árið 2014. Brasilíska öldungadeildaþingið ákvað í gær að Rousseff yrði ákærð.

„Ég hef mögulega gert mistök, en ég hef aldrei framið glæp,“ sagði Rousseff í gær umkringd ráðherrum sínum og stuðningsmönnum. „Þetta er það versta sem getur komið fyrir manneskju, að vera sakaður um glæp sem þú framdir ekki. Ekkert óréttlæti er hrikalegra.“

Þá fordæmdi hún „svikráð“ þeirra sem skemmdu ríkisstjórn hennar og sakaði varaforsetann Michel Temer, sem nú er orðinn forseti, um að skipa ríkisstjórn án umboðs. Hét hún því að berjast gegn nýju stjórninni sem hún kallaði einfaldlega „valdarán“.

Réttarhöldin yfir Rousseff verða við hæstarétt landsins og gæti tekið allt að sex mánuði.

Frétt The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert