Herforingi Hezbollah féll í Sýrlandi

Mustafa Badreddine
Mustafa Badreddine AFP

Herforingi skæruliðasamtakanna Hezbollah er fallinn í Sýrlandi. Mustafa Amine Badreddine lét lífið í mikilli sprengingu nálægt flugvellinum í Damaskus en samtökin tilkynntu andlát hans á netinu.

Var því haldið fram að Ísraelsmenn bæru ábyrgð á láti Badreddine en hann er sakaður, ásamt þremur meintum liðsmönnum Hezbollah, um að hafa myrt Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanon árið 2005.

Líbanska sjónvarpsstöðin al-Mayadeen TV hafði þegar sagt frá því að Badreddine hefði látið lífið í loftárás Ísraelsmanna áður en Hezbollah gaf frá sér yfirlýsingu en stjórnvöld í Ísrael hafa ekki tjáð sig um málið.

Í tilkynningu Hezbollah um andlát Badreddine kemur fram að hann hafi tekið þátt í mikilvægu starfi samtakanna frá árinu 1982.

Baddreddine var 55 ára þegar hann lést og talinn vera háttsettur herforingi í Hezbollah. Hann var frændi og jafnframt mágur Imad Mughniyeh, sem var helsti herforingi samtakanna áður en hann lét lífið í bílasprengju í Damaskus árið 2008.

Baddreddine var eitt sinn kallaður „hættulegri“ en Mughniyeh sem er jafnframt sagður hafa verið „kennarinn hans í hryðjuverkum.“

Þeir eru sagðir hafa unnið saman að sprengingu við herbúðir Bandaríkjahers í Beirut í Írak árið 1983 þar sem 241 lét lífið.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert