Fyrrverandi borgarstjóri London, Boris Johnson, sagði í viðtali í breska blaðið Sunday Telegraph í gær að Evrópusambandið væri að haga sér á sama hátt og nasistaleiðtoginn Adolf Hitler með því að reyna að búa til ofurríki í Evrópu.
Johnson er einn af helstu talsmönnum þess að Bretland gangi úr Evrópusambandinu, en kosið verður um það 23. júní næstkomandi. Miðað við niðurstöður kannana er mjótt á munum milli fylkinga í málinu.
Í viðtalinu sagði Johnson að saga Evrópu síðustu tvö þúsund árin væri saga endurtekninga um að reyna að koma álfunni allri undir sameiginlega stjórn, svipað og gert var af Rómarveldi forðum.
Vísaði hann til þess að bæði Napoleon og Hitler hefðu reynt þetta, en niðurstaðan væri alltaf hræðileg. „Evrópusambandið er ein tilraunin til að gera þetta með annarri aðferð,“ sagði Johnson í viðtalinu. Bætti hann við að vandamálið væri að þegnar álfunnar gætu ekki komið sér saman um að virða eitt og sama yfirvaldið.