Níu lögreglumenn í Egyptalandi hafa verið ákærðir fyrir að hafa beitt tvo lækna ofbeldi þegar þeir neituðu að falsa læknaskýrslur. Atvikið, sem átti sér stað í norðurhluta Kaíró, vakti mikla reiði og varð þess valdandi að þúsundir lækna mótmæltu við stéttarfélag sitt í borginni.
Lögreglumennirnir eru sagðir hafa ráðist að læknunum með ofbeldi og svívirðingum 28. janúar sl. en lögregluyfirvöld í Egyptalandi hafa sætt mikilli gagnrýni vegna pyntinga og dauðsfalla einstaklinga í varðhaldi frá því í lok árs 2015.
Þá hefur lögregla verið sökuð um að handtaka fólk eftir geðþótta og láta stjórnarandstæðinga „hverfa“. Hin meintu brot þykja minna á aðferðir sem tíðkuðust í valdatíð Hosni Mubarak, sem var flæmdur úr forsetastóli 2011.
Sitjandi forseti, Abdel Fattah al-Sisi, hefur kallað eftir því að lögreglumenn sem brjóta af sér séu látnir svara til saka, og sagt að hann muni fara fram á það við þingið að viðurlög gegn brotum af þessu tagi verði hert.
Í apríl sl. skaut lögreglumaður götusala til bana í Kaíró en mennina greindi á um verðið á tebolla. Myndir af vettvangi fóru í dreifingu á samskiptamiðlum og í kjölfarið tilkynntu saksóknarar að lögreglumaðurinn yrði ákærður fyrir morð og morðtilraun. Tveir vegfarendur særðust.
Í febrúar var annar lögreglumaður dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að berja dýraskurðlækni til bana í bænum Ismailiya. Læknirinn sat í varðhaldi þegar ofbeldið átti sér stað.
Þá var lögreglumaður dæmdur í lífstíðarfangelsi í apríl fyrir að skjóta ökumann til bana með lögreglubyssu sinni í rifrildi um flutningskostnað. Það tilvik leiddi til mótmæla í Kaíró.