Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) gerir ráð fyrir því að zika-veiran breiðist út í Evrópu seint í vor eða snemma sumars en lítil eða hófleg hætta er talin stafa af henni. Samkvæmt nýrri áhættumatsskýrslu verður hættan misjöfn eftir svæðum. Mest verður hún í löndum þar sem moskítóflugur þrífast.
Zsuzsanna Jakab, framkvæmdastjóri WHO í Evrópu, segir stofnunin kalla eftir því að þau lönd þar sem hættan er mest á útbreiðslu veirunnar bæti viðbúnað sinn og setji í forgang aðgerðir sem miða að því að fyrirbyggja zika-faraldur.
Í stærstum hluta álfunnar, þar sem moskítóflugur af tegundinni aedes eru ekki til staðar, er hættan lítil eða hófleg. Hættan er hins vegar talin mikil á Madeira-eyjum og á norðausturströnd Svartahafs, að því er kemur fram í tilkynningu stofnunarinnar.
Úttekt WHO leiðir í ljós að af 51 aðildarríki stofnunarinnar í Evrópu auk Liechtenstein sé 41 þeirra almennt séð vel í stakk búið til að takast á við zika-faraldur.
Fyrir lönd þar sem hættan á útbreiðslu veirunnar en mikil eða hófleg mælir WHO með því að yfirvöld grípi til ýmissa ráðstafana til að lágmarka hættuna. Þar á meðal eru aðgerðir til að hafa hemil á moskítóflugunum sem bera veikina með sér, og að heilbrigðisstarfsmenn geti greint smit snemma og tilkynnt um fyrstu tilfelli innan sólahrings. Þá sé mikilvægt að kunnátta og geta sé til staðar til að skima fyrir zika-veirunni og að verkferlar við að senda blóðsýni úr landi séu til staðar.
Mikið hefur verið rætt um tengsl zika-veirunnar við fæðingargalla í Suður-Ameríku. WHO mælir með því að þau ríki Evrópu þar sem líkur eru á zika-smitum geri áhættuhópum eins og þunguðum konum kleift að verjast smiti, þar á meðal í gegnum kynmök.
Öll önnur ríki ættu að einbeita sér að því að hafa hemil á smitberanum, fylgjast vel með smitum sem koma annars staðar frá og að veita ferðalöngum sem fara til landa þar sem veikin hefur komið upp upplýsingar um hana og smitleiðir hennar, þar með talið í gegnum kynmök.
„Við erum tilbúin að styðja Evrópulönd ef til zika-faraldurs kemur. Stuðningur okkar við lönd á svæðinu til að búa sig undir og að bregðast við heilbrigðisógnum eins og zika er lykilþáttur í umbótum á neyðarráðstöfunum WHO,“ segir dr. Nedret Emiroglu, framkvæmdastjóri smitsjúkdóma- og heilbrigðisöryggisdeildar WHO í Evrópu.