Saksóknarar í máli Reinholds Hannings sem starfaði sem fangavörður fyrir SS sveitirnar í útrýmingarbúðunum í Auschwitz í síðari heimsstyrjöldinni kröfðust í dag sex ára fangelsisrefsingar yfir honum. Er hann ákærður fyrir að hafa átt þátt í morðum á 170 þúsund manns í útrýmingarbúðunum.
Hanning er sagður hafa starfað við að ákvarða hvaða fangar voru nógu heilbrigðir til að geta stundað þrælavinnu og hverja ætti að senda beint í gasklefana. Er hann einnig sakaður um að hafa vitað af kerfisbundnu fjöldaaftökunum sem fóru fram með þeim hætti að föngum var stillt upp og þeir skotnir.
Sjá frétt mbl.is: Fyrrum SS vörður fyrir rétt
„Varnaraðilinn átti þátt í útrýmingu fanganna. Fórnarlömbin eiga það skilið að réttlætið nái fram að ganga í þessu máli,“ sagði Andreas Brendel aðalsaksóknari í málinu við réttarhöldin í dag en þau fara fram í þýska bænum Detmold.
Hanning hefur áður sagt að hann skammist sín fyrir þátttöku sína í stríðinu. „Ég skammast mín fyrir að leyfa þessu óréttlæti að viðgangast og ekkert gert til að koma í veg fyrir það. Ég biðst formlega fyrirgefningar á hegðun minni. Mér þykir þetta einlæglega leitt,“ sagði Hanning við réttarhöldin.
Sjá frétt mbl.is: „Ég hef þagað allt mitt líf“
Fleiri réttarhöld yfir gömlum SS-foringjum eru væntanleg á komandi misserum. Fyrrum sjúkraliði SS-sveitanna, Hubert Zafke sem er 95 ára að aldri, hefur verið ákærður fyrir þátttöku í 3.681 morðum í síðari heimsstyrjöldinni. Réttarhöldum yfir honum hefur þó verið frestað ítrekað vegna bágrar heilsu hans.
Sjá frétt mbl.is: SS menn dregnir til ábyrgðar