Lætur óvænt af embætti

Moshe Yaalon, varnarmálaráðherra Ísraels, tilkynnti í dag að hann hefði hug á að láta af embætti. Tilkynningin kom nokkuð á óvart en erlendir fjölmiðlar segja ástæðuna tengjast viðræðum Bejanmins Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, við hægriflokkinn Yisrael Beiteinu um hugsanlegt stjórnarsamstarf.

Yaalon lét hafa eftir sér að „hættuleg og öfgafull“ öfl hefðu tekið yfir Ísrael.

Talið er líklegt að Netanyahu muni bjóða harðlínumanninum Avigdor Lieberman, leiðtoga Yisrael Beiteinu, embætti varnarmálaráðherra, ákveði flokkurinn að ganga til liðs við ríkisstjórnina.

Lieberman er þekktur fyrir ögrandi framkomu og að taka harða og einstrengingslega afstöðu gegn Palestínumönnum. Hann hefur áður setið í ríkisstjórn Ísraels, seinast sem utanríkisráðherra frá 2013 til 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert