Pascal Hess, rúmlega fimmtugur Frakki, missti næstum af flugi MS804 frá París í Frakklandi til Kaíró í Egyptalandi þar sem hann týndi vegabréfinu sínu nokkrum dögum fyrir brottför. Vegabréfið fannst á götu í bænum Evreux þar sem hann bjó. Hess var ljósmyndari. Hann er meðal þeirra sem saknað er eftir er að farþegavél EgyptAir hvarf af ratsjám fyrir rúmum sólarhring.
Hjón á fertugsaldri frá Angers í Frakklandi voru einnig í vélinni ásamt tveimur börnum sínum. „Þau voru yndislegt fólk, enginn hafði lent upp á kant við þau og höfðu búið hér í Angers um tíma,“ sagði bæjarstjóri Angers í viðtali við fjölmiðla í gærkvöldi.
Richard Osman, jarðfræðingur og tveggja barna faðir, hafði nýlega flutt til South Wales í Bretlandi frá heimalandi sínu Egyptalandi.
Marwa Hamdy, framkvæmdastjóri hjá IMB, var einnig um borð í vélinni. Hún átti þrjá drengi á aldrinum 11 til 16 ára og var að koma úr heimsókn til fjölskyldu sinnar í París.
Um borð var einnig ríkisborgari Tjad. Talsmaður sendiráðs Tjad í Frakklandi sagði í samtali við CBB að maðurinn hafi verið á leiðinni til heimalands síns til að syrgja móður sína sem lést nýlega.
Sextíu og sex manns er saknað eftir að vélin hvarf af ratsjám.