Páfi fundaði með grunuðum erkibiskup

Frans páfi og Phillipe Barbarin funduðu í dag.
Frans páfi og Phillipe Barbarin funduðu í dag. AFP

Frans páfi átti í dag fund með kardinálanum Philippe Barbarin, erkibiskupnum af Lyon, sem grunaður er um að hafa hylmt yfir með presti sem hefur verið ákærður fyrir barnaníð. Talsmaður Vatíkansins staðfesti að fundurinn hefði átt sér stað, en fyrir þremur dögum sagði páfi að ekkert vit væri í því að fara fram á afsögn Barbarin, þar sem það myndi gefa til kynna að hann væri sekur.

Fréttaskýring mbl.is: Níðingsverk í skjóli kirkjunnar

Ákæruvaldið í Frakklandi hefur nú til athugunar að ákæra Barbarin fyrir yfirhylmingu, en hann er grunaður um að hafa leynt barnaníð prestsins Bernard Preynat. Preynat var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn fjórum drengjum í janúar sl. en brotin eru sögð hafa átt sér stað á árunum 1986-1991. Stuðningshópur fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis segir brot hans þó mun fleiri og fórnarlömbin a.m.k. fimmtíu talsins.

Rannóknin gegn Barbarin beinist m.a. að því hvenær hann og starfsmenn hans urðu áskynja ásakana gegn Preynat og hvort þeir mættu tilkynningaskyldu til yfirvalda. Samkvæmt skrifstofu biskupsdæmisins heyrði Barbarin fyrst af meintum brotum um mitt ár 2014 og leysti Preynat frá störfum í maí 2015.

Páfi sagðist í viðtali við tímaritið La Croix telja að Barbarin hefði gert rétt. „Hann er hugdjarfur, skapandi, trúboði. Nú ættum við að bíða útkomu ferlsisins í réttarkerfinu.“

Samtök fórnarlamba kynferðisofbeldis hafa gagnrýnt stuðningsyfirlýsingu páfa og segja viðbrögð hans til marks um tregðu kirkjunnar til að taka á kynferðisbrotum innan hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert