Snowden vill nýja löggjöf um uppljóstranir

Bandarískri uppljóstrarinn Edward Snowden.
Bandarískri uppljóstrarinn Edward Snowden. AFP

Edward Snowden segir nauðsynlegt að endurskoða löggjöf um réttindi uppljóstrara í Bandaríkjunum. Þetta segir hann eftir að heimildarmaður innan úr varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sagði frá því að kerfið reyni að veiða uppljóstrara í gildru til að koma í veg fyrir uppljóstranir.

John Crane, fyrrum starfsmaður Pentagon, steig nýverið fram og greindi frá þessum starfsháttum varnarmálaráðuneytisins. Stinga orð hans í stúf við það sem Hillary Clinton og Barack Obama hafa haldið fram. Hafa þau bæði sagt að núverandi löggjöf verndi uppljóstrara á borð við Edward Snowden. 

Segist Snowden hafa reynt að vara uppljóstrara úr Pentagon við slíkum gildrum í langan tíma. „Uppljóstrarar í þessari stöðu eru að leika sér að eldinum,“ segir Snowden í viðtali við The Guardian.

Hann segir enn fremur: „Við þurfum skýra, framkvæmanlega löggjöf sem verndar uppljóstrara og við þurfum fyrirmyndir sem sýna að það er hægt að ljóstra upp um leyndarmál án þess að hafna í fangelsi. Það eru engir hvatar fyrir uppljóstrara í dag til þess að segja frá ólöglegum starfsháttum ráðuneyta og opinberra stofnana og það mun ekki breytast nema með breyttri löggjöf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka