Ferillinn hrundi eftir klúru myndina

Anthony Weiner var þingmaður og síðar líklegt borgarstjóraefni demókrata, en …
Anthony Weiner var þingmaður og síðar líklegt borgarstjóraefni demókrata, en ferill hans tók u-beygju eftir að hann sendi klúrar myndir á konur.

Anthony Weiner, fyrrverandi þingmaður demókrata í New York, var einn umtalaðasti stjórnmálamaður Bandaríkjanna árið 2011 eftir að klúr ljósmynd sem hann sendi á 21 árs konu í gegnum Twitter komst í dreifingu. Leiddi það til þess að Weiner viðurkenndi að hann hefði átt óviðeigandi samskipti við nokkrar konur í gegnum netið og sagði hann í kjölfarið af sér þingmennsku. Tveimur árum síðar bauð hann sig fram til borgarstjóra New York, en komst þá aftur í fjölmiðla fyrir sambærilegt mál; að hafa átt í erótískum samskiptum við konur í gegnum netið.

Nú er heimildarmynd um Weiner komin út, en í henni fylgja leikstjórarnir Josh Kriegman og Elyse Steinberg Weiner eftir, þegar hann er í framboði til borgarstjóra New York árið 2013, og verða um leið vitni að því þegar seinna hneykslismálið kemur upp á yfirborðið og Weiner þarf að takast á við afleiðingarnar – aftur.

Heimildarmyndin hefur hlotið góða dóma og vann m.a. til verðlauna fyrir bestu mynd að mati dómnefndar á Sundance-kvikmyndahátíðinni. Í myndinni er m.a. fylgst með Weiner og eiginkonu hans, Humu Abedin, aðstoðarkonu Hillary Clinton, ganga í gegnum afleiðingar hneykslismálsins, en hún hefur staðið þétt við hlið eig­in­manns síns síðan hneykslið komst í há­mæli.

Kriegman og Steinberg segja Weiner hafa viljað opna sig algjörlega og þess vegna hafi hann samþykkt að myndin kæmi út, þrátt fyrir hneykslið, en að sögn Kriegman getur hann engum um kennt nema sjálfum sér. „Ferill sem hann hafði byggt upp í 20 ár hrundi á þessu eina augnabliki.“

Anthony Weiner og eiginkona hans Huma Abedin.
Anthony Weiner og eiginkona hans Huma Abedin. AFP

Harður í horn að taka á þingfundum

Weiner er fæddur 4. september 1964, en lauk BA-gráðu í stjórnmálafræði árið 1985. Eftir það hóf hann störf hjá Chuck Schumer, sem þá var þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Vann hann hjá Schumer í sex ár, þar til hann reyndi fyrst fyrir sér sjálfur í stjórnmálum. Var það árið 1991 þegar borgarstjórn New York-borgar var stækkuð úr 35 sætum í 51 sæti. Weiner tryggði sér öruggt sæti í borgarstjórninni fyrir hönd demókrata í kosningunum og varð í kjölfarið sá yngsti til að sitja í borgarstjórn í borginni, 27 ára gamall.

Næstu sjö ár starfaði hann í borgarstjórninni, og var vel liðinn af borgarbúum og samstarfsfélögum. Árið 1998 fór hann svo í framboð til þingsins og fékk í kjölfarið sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Þótti hann harður í horn að taka á þingfundum og sat ekki á skoðunum sínum. Weiner sat á þingi til ársins 2011 þegar hann sagði af sér þingmennsku eftir hneykslismálið.

„Ég er maðurinn á myndinni og ég sendi hana“

Wein­er neitaði í fyrstu að kann­ast nokkuð við mynd­ina, sem var af leyndasta líkamshluta hans í fullri reisn, en ekki leið á löngu þar til hann var kom­inn í öngstræti í mál­flutn­ingi sín­um. „Ég er maður­inn á mynd­inni og ég sendi hana,“ sagði hann á blaðamannafundi í byrjun júní árið 2011. Hann sagði á fund­in­um að hún hefði verið send í gríni en hann hefði svo fljót­lega áttað sig á mis­tök­un­um. 

„Ég skamm­ast mín mikið vegna hegðunar minn­ar og dómgreind­ar­leys­is,“ sagði Weiner, um leið og hann viðurkenndi að hann hefði átt óviðeig­andi sam­skipti við sex kon­ur í gegn­um netið og í síma. Hann neitaði því hins veg­ar að hafa átt í kyn­ferðis­legu sam­bandi við þær. Hann sagðist sjá eft­ir gjörðum sín­um en ætlaði ekki að segja af sér. 

Anthony Weiner og Huma Abedin.
Anthony Weiner og Huma Abedin. AFP

Annað hneykslismál í miðri kosningabaráttu

Skömmu eft­ir þetta óskaði hann eft­ir að fara í tíma­bundið leyfi frá þing­störf­um svo hann gæti leitað sér hjálp­ar og orðið heil­brigðari mann­eskja og betri eig­inmaður, en hann kvænt­ist Abed­in ár­ið áður. Um miðjan mánuðinn sagði Weiner síðan af sér þing­mennsku. Sex mánuðum síðar fæddi Abed­in frumb­urð þeirra hjóna en hún hef­ur staðið þétt við hlið eig­in­manns síns síðan hneykslið komst í há­mæli.

Tveimur árum síðar sóttist Weiner eft­ir því að verða borg­ar­stjóri í New York. Sagðist hann þá hafa lært dýr­mæta lex­íu í kjöl­far hneyksl­is­ins og bað um annað tæki­færi. „Ég gerði stór mis­tök og ég veit að ég brást mörg­um,“ sagði hann meðal ann­ars. Ekki leið hins vegar á löngu þar til annað hneykslismál kom upp og játaði hann þá að hafa sent djörf skila­boð til konu.

Sagðist Weiner vera „mjög leiður“ yfir mál­inu og baðst af­sök­un­ar á blaðamanna­fundi í New York í gær með eig­in­kon­una sér við hlið. „Þessi hegðun er að baki. Ég hef beðið kon­una mína, Humu, af­sök­un­ar og ég er þakk­lát­ur fyr­ir að hún hef­ur unnið í þessu með mér og að hún hef­ur fyr­ir­gefið mér,“ sagði Weiner við frétta­menn. „Ég elska hann, ég hef fyr­ir­gefið hon­um, ég trúi á hann,“ sagði eig­in­kon­an.

Í september 2013 tapaði Weiner kosningunni um borgarstjóra með minna en 5% greiddra atkvæða.

Í heimildarmyndinni fá áhorfendur að fylgjast með því hvernig kosningabaráttan hófst, en þá var Weiner talinn líklegasta borgarstjóraefni demókrata. Margt breyttist þó eftir að hneykslismálið kom upp og fjöldi fólks hvatti hann til að draga framboðið til baka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert