Gæludýramarkaður setur fugla í hættu

Haukörnin frá Jövu, þjóðarfugl Indónesíu, er á meðal tegunda sem …
Haukörnin frá Jövu, þjóðarfugl Indónesíu, er á meðal tegunda sem ólögleg gæludýraverslun hefur sett í útrýmingarhættu. AFP

Þrettán tegundir fugla sem lifa í Indónesíu eru í verulegri útrýmingarhættu, aðallega vegna mikillar ólöglegrar verslunar með gæludýr, að sögn dýraverndarsamtaka. Spurnin innanlands eftir söngfuglum ógnar einnig fuglategundum í öðrum löndum eins og Malasíu og Taílandi.

Gríðarlegur fjöldi mismunandi fuglategunda þrífst á hinum mörgu eyjum Indónesíu og það hefur lengi verið vinsælt hjá landsmönnum að halda þá sem gæludýr. Sú árátta hefur hins vegar orðið þess valdandi að mjög hefur gengið á stofna sumra fuglategunda, þar á meðal haukarnarins á Jövu sem er þjóðarfugl Indónesíu.

„Þetta er marg milljón dollara iðnaður, það er mikil glæpastarfsemi og margir græða ólöglega á viðskiptunum,“ segir Chris Shepherd, framkvæmdastjóri TRAFFIC í Suðaustur-Asíu, samtaka sem fylgjast með verslun með dýralíf.

Ólöglegt er að veiða villta fugla og selja sem gæludýr í Indónesíu. Lögunum er hins vegar lítt framfylgt og starfa stórir fuglamarkaðir í borgum landsins óáreittir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert