Samþykktu neyðarlán til Grikkja

Frá vinstri: Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, tekur í hönd Jeroens …
Frá vinstri: Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, tekur í hönd Jeroens Dijsselbloem, forseta evruhópsins og fjármálaráðherra Hollands. Við hlið þeirra stendur fjármálaráðherra Lúxemborgar, Pierre Gramegna. AFP

Fjármálaráðherrar evrulanda samþykktu frekari neyðarlán til Grikklands á fund í Brussel sem stóð langt fram á gærkvöldið. Þar með fá grísk stjórnvöld aðgang að rúmum tíu milljörðum evra til viðbótar. Ráðherrarnir segja að Grikkjum verði einnig boðin skuldauppgjöf.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði þá kröfu að hluti lána Grikkja yrði felldur niður þar sem skuldir ríkisins væru ósjálfbærar. Þær nema nú um 180% af þjóðarframleiðslu landsins. Fulltrúar sjóðsins og evruríkja hafa tekist á um lækkun skulda Grikkja um nokkurra mánaða skeið. Úrræðið er sagt skilyrði þess að sjóðurinn haldi áfram að taka þátt í neyðaraðgerðum til hjálpar Grikkjum.

Gríska þingið samþykkti frekari niðurskurð og skattahækkanir um helgina til að fá aðgang að frekara lánsfé sem gerir stjórnvöldum kleift að standa skil á afborgunum á fyrri lánum á næstu mánuðum.

Jeroen Dijsselbloem, forseti evruhópsins, lýsti samkomulaginu sem meiri háttar tímamótum að loknum ellefu klukkustunda löngum viðræðum leiðtoganna í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert