Til stendur að hefja aðgerðir á næstu dögum við að bjarga flugritum farþegaþotu flugfélagsins EgyptAir sem hrapaði í Miðjarðarhafið í síðustu viku með 66 manns um borð en talið er að þeir séu á um þrjú þúsund metra dýpi. Allir um borð létu lífið þegar þotan fórst.
Fram kemur í frétt AFP að enn sé unnið að því að staðsetja flugrita farþegaþotunnar, sem var af gerðinni Airbus A320, á hafsbotninum en þeir eru einnig gjarnan nefndir svörtu kassarnir. Vonast er til að þeir innihaldi upplýsingar um það hvers vegna þotan fórst.
Skip á vegum franska flotans er á svæðinu til þess að aðstoða egypsk yfirvöld í leitinni. Um borð eru tveir sérfræðingar í rannsóknum á flugslysum. Skipið er enn fremur búið sérstökum búnaði til þess að staðsetja flugrita út frá boðum sem þeir senda frá sér.
Hugsanlegt er að annað skip verði einnig nýtt í aðgerðunum sem búið er fjarstýrðum kafbáti til þess að hafa uppi á flugritunum þegar þeir hafa verið staðsettir nákvæmlega.