Vaxandi andstaða við refsiaðgerðir

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands.
Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands. AFP

Evrópusambandið stendur frammi fyrir erfiðum viðræðum um framlengingu á refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna vaxandi andstöðu við þær á meðal ríkja sambandsins. Þetta viðurkenndu þýsk stjórnvöld í dag samkvæmt frétt AFP.

Haft er eftir Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, að þýskir ráðamenn væru meðvitaðir um að andstaðan við refsiaðgerðirnar hefði aukist innan Evrópusambandsins. „Það verður erfiðara en á síðasta ári að finna sameiginlegan flöt á málinu. Hver verður staðan í lok mánaðarins þegar ákvörðun hefur verið tekin um refsiaðgerðirnar? Ég veit það ekki.“

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í síðustu viku að hún reiknaði með því að refsiaðgerðirnar yrðu framlengdar. Steinmeier nefndi ekki ákveðin ríki sambandsins til sögunnar en efasemdir hafa verið einna mestar hjá stjórnvöldum á Ítalíu og í Ungverjalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert