Allar vísanir til Ástralíu voru fjarlægðar úr lokaútgáfu viðamikillar skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar að kröfu þarlendra stjórnvalda. Þau óttuðust að upplýsingar um umhverfisvá í landinu kæmi niður á ferðamannaiðnaðinum þar.
Skýrslan var birt í dag og ber titilinn „Heimsminjar og ferðamennska í breytilegu loftslagi“. UNESCO, menningarmálastofnun SÞ, stóð að henni ásamt umhverfisdeild samtakanna og Sambandi áhyggjufullra vísindamanna (Union of Concerned Scientist). Í drögum hennar var upphaflega að finna lykilkafla um Kóralrifið mikla undan ströndum Ástralíu sem er í hættu vegna hlýnunar hafsins auk styttri umfjallana um Kakadu- og Tasmnaníuregnskógana.
Ástralska umhverfisráðuneytið mótmælti hins vegar þegar það sá drögin og krafðist þess að ekki yrði minnst á landið í skýrslunni. UNESCO varð við því. Ástralska útgáfa The Guardian upplýsir um þetta.
Haft er eftir Will Steffen, einum vísindamannanna sem fór yfir kaflann um Kóralrifið mikla, að viðbrögð ástralskra stjórnvalda minni á Sovétríkin. Engir kaflar um önnur lönd voru fjarlægð úr skýrslunni. Ástralía er því eina byggða álfa jarðar sem ekki er minnst á í skýrslunni.
Talsmaður ástralska umhverfisráðuneytisins ber fyrir sig að neikvæð umfjöllun um staði á heimsminjaskrá hafi áður haft slæm áhrif á ferðamennsku. Áður höfðu áströlsk stjórnvöld lagt hart að UNESCO að setja Kóralrifið ekki á lista yfir heimsminjar í hættu þrátt fyrir að mikil fölnun hafi átt sér stað á því vegna loftslagsbreytinga.