Ólympíuleikunum í Rio de Janeiro ætti að aflýsa eða fresta vegna hættunnar sem stafar af zika-veirunni. Þetta er skoðun 150 lækna, vísindamanna og fræðimanna um allan heim sem sendu í dag frá sér opið bréf þess efnis samkvæmt frétt AFP.
Fram kemur í fréttinni að ábyrgðarlaust sé að mati sérfræðinganna að halda Ólympíuleikana í borginni þar sem fjöldi manns hafi sýkst þar af zika-veirunni. „Við höfum áhyggjur af heilsufari á alþjóðavísu,“ segir ennfremur í bréfinu sem undirritað er af sérfræðingum meðal annars frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, Noregi, Filippseyjum, Japan, Brasilíu, Suður-Afríku, Tyrklandi og Líbanon.
Sköpuð sé óþarfa hætta þegar 500 þúsund erlendir ferðamenn hvaðanæva komi á Ólympíuleikana, sýkist hugsanlega af veirunni og beri hana til heimalanda sinna.