Ekki ástæða til að fresta leikunum

Zika-veiran er skyld öðrum veirum sem berast með moskítóflugum.
Zika-veiran er skyld öðrum veirum sem berast með moskítóflugum. AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gerir lítið úr áhyggjum af hættunni sem stafar af zika-veirunni og tekur ekki undir áskorun 150 lækna, vísindamanna og fræðimanna sem vilja að Ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í sumar verði aflýst eða frestað vegna veirunnar.

Í yfirlýsingu frá stofnuninni segir að engin ástæða sé til þess að fresta leikunum. Bruce Aylward, yfirmaður hjá stofnuninni, segir að þegar hafi verið gert áhættumat. Stofnunin gæti hins vegar vissulega staðið sig betur við að útskýra málið fyrir almenningi.

Sérfræðingarnir telja það ábyrgðarlaust að halda Ólympíuleikana í borg þar sem fjöldi manns hafi sýkst af zika-veirunni. Með því sé sköpuð óþarfa hætta sem vel sé hægt að koma í veg fyrir.

Aylward segir að Ólympíuleikarnir muni hafa lítil áhrif á útbreiðslu veirunnar. Best væri hins vegar að hafa allan vara á og fylgja tilmælum heilbrigðisyfirvalda.

Ekki mætti þó útiloka með öllu að leikunum yrði frestað. „En þær upplýsingar sem liggja nú fyrir gefa til kynna að leikarnir eigi að sjálfsögðu að fara fram,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Vilja aflýsa Ólympíuleikunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert