Fundu hluta af dulmálsvél Hitlers

Ljósmynd/Tölvusafnið í Bletchley Park

Lyklaborð dulmálsvélar, sem notuð var til þess að dulkóða skilaboð á milli nasistaforingjans Adolfs Hitlers og hershöfðingja hans á árum síðari heimsstyrjaldarinnar, fannst nýverið í geymsluskúr í Essex í Bretlandi. Lyklaborðið, sem lítur út eins og ritvél, hafði í kjölfarið verið auglýst á uppboðsvefnum eBay.

Eigandinn hefur greinilega ekki gert sér grein fyrir því hvað hann væri með í höndunum en verðið var aðeins tæplega 10 pund eða um tvö þúsund krónur. Tölvusafnið í Bletchley Park hafði lengi leitað að lyklaborðinu þegar það fannst. Enn vantar hins vegar mótorinn til þess að knýja vélina og hefur verið biðlað til almennings að hafa augun opin í þeim efnum. Finnist hann er vonast til þess að hægt verði að ræsa vélina og sýna hvernig hún virkaði.

Dulmálsvélin, sem nefndist Lorenz, var talsvert fyrirferðarmikil og var notuð fyrir hernaðarlega mikilvæg skilaboð, mikilvægari en þau sem send voru með svokölluðum Enigma-dulmálsvélum. Sett voru skilaboð inn í vélina og sá hún til þess að þau væru dulkóðuð samkvæmt ákveðnu kerfi. Eftir stríðið voru slíkar vélar áfram notaðar.

Fréttavefur breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka