Þriðjungur Kóralrifsins mikla dauður eða deyjandi

Dauðir og deyjandi kóralar í miðju Kóralrifinu mikla undan ströndum …
Dauðir og deyjandi kóralar í miðju Kóralrifinu mikla undan ströndum Ástralíu. AFP

Að minnsta kosti 35% kórala í sumum hlutum Kóralrifsins mikla undan ströndum Ástralíu eru dauð eða deyjandi vegna gríðarlegrar fölnunar af völdum loftslagsbreytinga, að sögn þarlendra vísindamanna. Fölnun kóralanna nú er talin sú versta sem sögur fara af.

Vísindamenn hafa rannsakað rifið úr lofti og á sjó undanfarna mánuði eftir að ljóst varð að meiri háttar fölnun var farin að eiga sér stað í mars vegna hækkandi hita í hafinu. Kóralar eru afar viðkvæmir fyrir hitastigsbreytingum. Í viðvarandi hlýindum drepast þörungar utan á þeim sem veldur því að kóralarnir fölna og deyja á endanum. 

Terry Hughes, forstöðumaður kóralrannsókna við James Cook-háskóla í Ástralíu, segir að hnattræn hlýnun hafi valdið usla í rifinu sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Í 84 rifjum í norðanverðu og fyrir miðju Kóralrifsins mikla hafi í það minnsta 35% kóralanna verið dauðir eða deyjandi þegar vísindamenn könnuðu ástandið.

Kóralarnir í suðurhluta rifsins eru sagðir í skárra ástandi þar sem hitastigið sunnar í hafinu hefur verið nær meðaltalshita.

„Þetta er þriðja skiptið á átján árum sem Kóralrifið mikla hefur orðið fyrir útbreiddri fölnun vegna hnattrænnar hlýnunar og þessi atburður núna er mun öfgafyllri en þeir sem við höfum mælt áður,“ segir Hughes.

Þrýstu á Sameinuðu þjóðirnar

Náttúruverndarsamtök hafa biðlað til ástralskra stjórnvalda um að gera meira til að bjarga kóralrifinu sem stafar einnig hætta af úrgangi frá landbúnaði, iðnaðarstarfsemi og krossfiskum sem nærast á þörungunum. Auk hnattrænnar hlýnunar hefur einn öflugasti El niño í manna minnum leitt til óvenjumikilla hlýinda í hafinu við Ástralíu.

Ríkisstjórn Ástralíu, sem hefur margoft verið sökuð um að draga lappirnar í loftslagsmálum, segir að aldrei hafi meira verið gert til að bjarga rifinu sem þúsundir Ástrala reiða sig á sem lífsviðurværi með einum eða öðrum hætti.

Greg Hunt, umhverfisráðherra landsins, benti á að heimsminjanefnd SÞ hafi sagt störf stjórnvalda fordæmi á heimsvísu og gagnrýndi að í tíð síðustu ríkisstjórnar hafi staðið til að lýsa rifið í hættu.

Ástralska ríkisstjórnin lagði hart að heimsminjanefndinni að setja Kóralrifið mikla ekki á lista yfir heimsminjar í hættu og fékk sínu framgengt. Í síðustu viku var upplýst að stjórnin hefði einnig þrýst á SÞ að fjarlægja allar vísanir til Ástralíu og ástands Kóralrifsins mikla úr skýrslu um loftslagsbreytingar af ótta við neikvæð áhrif á ferðamennsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert