Maður, sem leiddi árásina á háskólann í Garissa í Kenía á síðasta ári, hefur verið felldur. Sómölsk yfirvöld greindu frá dauða Mohamed Kuno í dag en hann er sagður hafa skipulagt árásina á háskólann í apríl á síðasta ári þar sem 148 létu lífið.
Að sögn sómalskra heryfirvalda var Kuno einn af sextán sem voru drepnir í aðgerðum hersins í sómölsku hafnarborginni Kismayo. Fjórir þeirra eru sagðir hafa verið leiðtogar í hryðjuverkasamtökunum al-Shabab.
Drápið á Kuno var síðan staðfest á blaðamannafundi sem haldinn var af Abdirashid Janan, öryggismálaráðherra í sómalska héraðinu Jubaland.
Eftir árásina á Garissa-háskólann buðu kenísk stjórnvöld jafnvirði 26 milljóna íslenskra króna í verðlaun fyrir að fanga Kuno.
Kuno var Keníamaður af sómölskum uppruna og var skólastjóri í íslömskum skóla í Garissa til ársins 2007. Þá fór hann yfir til Sómalíu þar sem hann tók þátt í skæruhernaði UIC sem á þeim tíma stjórnaði stórum landsvæðum í Sómalíu. Þegar að þau samtök voru lögð niður gekk hann til liðs við hernaðarhópinn Hizbul Islam sem árið 2010 sameinaðist al-Shabab.
Forseti Kenía lýsti yfir þjóðarsorg í landinu í kjölfar árásanna á Garissa háskólann en hún var sú blóðugasta í landinu í rúm 20 ár. Eins og fyrr segir létu 148 lífið.