Kalla sendiherrann heim

Armenski fáninn fyrir utan þýska þinghúsið.
Armenski fáninn fyrir utan þýska þinghúsið. AFP

Tyrkir hafa ákveðið að kalla sendiherra og sendifulltrúa sína í Þýskalandi heim eftir að þýska þingið samþykkti þingsályktun þar sem því er lýst yfir að fjöldamorð Tyrkja á Armenum í fyrri heimsstyrjöldinni væru þjóðarmorð.

Armenar segja að allt að 1,5 milljónir þjóðarinnar hafi verið drepnar í grimmdarverkum árið 1915. Tyrkir segja að mannfallið hafi verið mun minna og hafna skilgreiningunni „þjóðarmorð.“

Tímasetning samþykktar ályktunarinnar hefur m.a. verið gagnrýnd þar sem nú ríður á fyrir Evrópusambandið að halda friði og góðum tengslum við Tyrki vegna flóttamannavandans.

Forseti Tyrklands segir að ályktunin gæti skaðað samskipti landanna tveggja. Forsætisráðherra landsins segir að sendinefndin hafi verið kölluð heim til að ræða framhaldið.

Armenar fagna ályktuninni og segja þetta innlegg Þjóðverja gríðarlega mikilvægt skref. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert