Starfsfólki Auschwitz-safnsins hefur tekist að hafa uppi á um 16 þúsund munum sem tilheyrðu gyðingum sem teknir voru af lífi í útrýmingarbúðum nasista. Flestir þeirra látnu voru myrtir í gasklefum búðanna.
Meðal annars er um að ræða tóm lyfjaglös, pípur, kveikjara, skó og skartgripi. Fornleifafræðingar grófu munina upp árið 1967. Þeim var komið fyrir í 48 pappakössum sem hafa safnað ryki síðustu áratugina.
Piotr Cywinski, starfsmaður safnsins, sagðist í samtali við blaðamann AFP-fréttaveitunnar telja að upphaflega hafi átt að greina og rannsaka munina. Fyrr í þessum mánuði skiluðu munirnir sér á safnið sem er í pólsku borginni Oswiecim.
Ein milljón evrópskra gyðinga létu lífið í Auschwitz-útrýmingarbúðunum á árunum 1940 til 1945, eða í seinni heimsstyrjöldinni.