Hátt í 600 þúsund manns hafa skrifað undir í undirskriftarsöfnun á netinu þar sem þess er krafist að dómari í kynferðisbrotamáli gegn fyrrverandi nema við Stanford-háskóla segi af sér. Dómarinn dæmdi Brock Turner, sem var einn efnilegasti sundkappi skólans, í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa beitt rænulausa konu kynferðisofbeldi á skólalóðinni, en mörgum þykir dómurinn ekki hæfa brotinu.
Frétt mbl.is: Árásarmaðurinn gerður að píslarvotti
Dómurinn hefur vakið mikla reiði víða um heim, en hámarksrefsing fyrir glæpinn er 14 ára fangelsisdómur en mun Turner líklega aðeins verja þremur mánuðum bak við lás og slá. Turner var fundinn sekur um þrjá ákæruliði, en hann hætti ekki að brjóta gegn konunni fyrr en tveir hjólreiðarmenn sem áttu leið hjá stóðu hann að verki.
Það voru sænsku stúdentarnir Carl-Fredrik Arndt og Peter Jonsson sem komu auga á Turner á bak við ruslagám þar sem hann lá ofan á hreyfingarlausri konunni. Þegar þeir nálguðust Turner stakk hann af, en Jonsson elti hann uppi og hélt honum föstum þar til lögreglan kom og handtók hann. Arndt beið hjá konunni á meðan, en mennirnir tveir voru lykilvitni í málinu.
Aaron Persky, dómarinn í málinu, sagðist hafa litið til þess að Turner hefði fengið góð meðmæli og væri ekki á sakaskrá. Sagði hann að fangelsisvist myndi hafa „veruleg áhrif á hann“.
Fjölmargir hafa opinberlega gagnrýnt niðurstöðu dómarans, þar á meðal Barbara Boxer, öldungadeildarþingmaður bandaríska þingsins. „Sex mánuðir fyrir það að ráðast á konu með ógeðfelldum hætti, sérstaklega eftir að hún var nógu hugrökk til að stíga fram, er fáránlegt,“ sagði hún í yfirlýsingu.
Dóminum hefur einnig verið lýst sem blautri tusku í andlit brotaþola kynferðisofbeldis. „Dómarinn fattaði ekki að sú staðreynd að Brock Turner sé hvítur afreksíþróttamaður í virtum háskóla á ekki að gera það að verkum að dómurinn sé mildaður,“ skrifaði Maria Ruiz, sem hóf undirskriftarsöfnunina. „Honum mistókst að senda þau skilaboð að kynferðisofbeldi er lögbrot, óháð þjóðfélagsstöðu, kynþætti, kynferði eða öðrum þáttum.“
Þá hafa ummæli föður Turners einnig vakið hörð viðbrögð, en hann sagði að sonur sinn ætti ekki að þurfa að sitja í fangelsi vegna „20 mínútna gjörnings“. Hann ætti frekar að fá að fræða ungt fólk um það hvernig áfengisdrykkja getur eyðilagt mannslíf.
Hið 23 ára fórnarlamb Turner, sem hefur ekki komið fram undir nafni opinberlega, tjáði sig í réttarsalnum á fimmtudag og fór með samantekt, 12 blaðsíðna yfirlýsingu sem hún hafði lagt fyrir dómarann. Sagðist hún betur geta staðið fyrir allar konur ef nafn hennar og andlit yrði ekki gert opinbert. „Ég er að koma fram, einfaldlega sem kona sem vill að hlustað sé á sig,“ sagði hún. „Nú er ég allar konur“.
Í yfirlýsingunni rifjaði hún upp hvernig hún hefði farið í partý 17. janúar 2015 og vaknað á sjúkrahúsi daginn eftir án þess að muna hvað hafði gerst kvöldið áður. Þá talaði hún um rannsóknina sem hún þurfti að gangast undir til að safna mætti sönnunargögnum og sársaukafullar yfirheyrslur á meðan málið stóð yfir.
Hún lýsti því m.a. hvernig henni hefði verið ráðlagt að ráða valdamikla lögmenn og sérfræðivitni; hvernig henni hefði verið tjáð að árásarmaðurinn myndi gera allt til að sannfæra fólk um að hann hefði bara verið ringlaður þegar hann réðist á hana.
„Ég var skotmark markvissra spurninga sem beindust að einkalífi mínu, ástarlífi mínu, fjölskyldulífi mínu; vitlausra spurninga sem miðuðu að því að safna smávægilegum upplýsingum til að reyna að grafa upp afsökun fyrir þennan mann, sem hafði afklætt mig til hálfs áður en hann hafði fyrir því að spyrja mig að nafni,“ sagði konan.
Þá sagði hún að tvö líf hefðu verið eyðilögð. „Skaði þinn var áþreifanlegur; þú varst sviptur titlum, gráðum, skólavist. Skaði minn var innvortis, óséður, ég ber hann með mér. Þú tókst sjálfsvirðingu mína, einkalíf, orku, tíma, öryggi, nánd, sjálfsöryggi, rödd, þar til í dag.“
Yfirlýsing hennar hennar hefur vakið heimsathygli og verið skoðuð oftar en 10 milljón sinnum á BuzzFeed.
Kynferðisofbeldi við háskóla er svo títt í Bandaríkjunum að nær er að tala um faraldur, en síðustu misseri hefur átt sér stað ákveðin vitundarvakning varðandi það hversu árásarmennirnir sleppa oft vel en fórnarlömbin fara illa út úr því að stíga fram.