Grunuð um að hafa brennt dóttur sína

Pakistanskar konur í Lahore.
Pakistanskar konur í Lahore. AFP

Lögregla í Lahore í Pakistan hefur handtekið fimmtuga konu sem grunuð er um að hafa myrt 18 ára dóttur sína, Zeenat Rafiq, en hún hafði nýverið gengið í hjónaband án samþykkis fjölskyldunnar.

Að sögn lögreglu bar líkið þess merki að hún hafi sætt pyntingum. Eldsneyti hafi síðan verið skvett yfir hana og hún brennd. Rannsókn á líkinu er talin geta sýnt fram á að hún hafi verið lifandi þegar í henni var kveikt.

„Móðir hennar hefur játað verknaðinn en við eigum erfitt með að trúa því að fimmtug kona hafi komið ein að verknaðinum, án aðstoðar annarra úr fjölskyldunni”, segir lögreglufulltrúinn Ibadat Nisar í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC

Stúlkan hafði gengið í hjónaband í síðustu viku eftir að hafa strokið að heiman og höfðu hin nýgiftu hjón dvalið hjá fjölskyldu eiginmannsins Hassan Khan. Í samtali við BBC segir Khan tengdafjölskyldu sína hafa tælt eiginkonu sína til baka með loforði um sættir. „Þegar hún sagði foreldrum sínum frá hjónabandinu, börðu þau hana svo illa að það blæddi úr munni hennar og nefi.“

Nokkur mál af svipuðum toga hafa komið upp í Pakistan að undanförnu en árásir á konur sem fara gegn reglum um ástir og hjónabönd, sem þykja heldur íhaldssamar, eru algengar þar í landi.

Í síðustu viku var kennslukona brennd í nágrenni höfuðborgarinnar, Islamabad, fyrir að neita bónorði og í síðasta mánuði var táningsstúlka í Abottabad brennd lifandi, fyrir að aðstoða vin sinn við að flýja að heiman. Nærri 1.100 konur voru fórnarlömb heiðursmorða í Pakistan á síðasta ári samkvæmt upplýsingum frá Mannréttindanefnd Pakistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert