16 ára stúlka sem móðir hennar drap fyrir að giftast manni sem hún valdi sjálf, var lögð til grafar skömmu fyrir dögun af tengdaforeldrum sínum. Aðgerðarsinnar og stjórnmálamenn hafa fordæmt drápið sem er eitt af fjölmörgum „heiðursmorðum“ í landinu síðustu misseri.
Zeenat Bibi var brennd lifandi í gærmorgun í borginni Lahore af móður sinni. Enginn ættingi stúlkunnar sóttist eftir því að sækja líkið og varð það þá hlutverk fjölskyldu eiginmanns hennar að grafa líkamsleifarnar í kirkjugarði nálægt borginni. Stúlkan hafði aðeins verið gift hinum tvítuga Hasan Khan í nokkra daga. Khan hefur sent kvörtun til lögreglu vegna drápsins en móðir stúlkunnar, Perveen Bibi, er nú í haldi lögreglu.
Að sögn vitna hljóp Perveen út á götu eftir að hafa drepið stúlkuna, barði í bringu sína og kallaði: „Ég hef drepið dóttur mína fyrir að haga sér illa og koma slæmu orðspori á fjölskyldu okkar!“
Blaðamaður AFP í borginni greinir frá því að heimili fjölskyldu Zeenat sé nú lokað og læst og að sögn nágranna hefur fjölskyldan yfirgefið heimili.
Mörg hundruð konur eru drepnar á ári hverju í Pakistan í svokölluðum „heiðursmorðum“ en það er sjaldgæft að gerandinn sé kona eins og í þessu tilfelli. Lögregla hefur einnig handtekið tengdason Perveen og leita nú sonar hennar. Rannsakendur bíða enn eftir niðurstöðum krufningar.
Málið hefur vakið mikla reiði og hafa aðgerðarsinnar og stjórnmálamenn kallað eftir aðgerðum stjórnvalda. Að sögn þingmannsins Sherry Rehman þarf að breyta lögunum svo erfiðara sé að komast upp með dráp eins og þessi. Þá sagði mannréttindasinninn Hina Gilani að eitthvað mikið væri að samfélaginu fyrst fjölskylda gæti snúist svona gegn barni sínu.
Forsætisráðherra landsins, Nawaz Sharif, hefur heitið því að berjast gegn heiðursmorðum í landinu.