Belgískir nasistar þiggja þýskan lífeyri

Útrýmingarbúðirnar í Buchenwald.
Útrýmingarbúðirnar í Buchenwald. Wikipedia

Allt að 2.500 belgískir fyrrverandi nasistar þiggja nú lífeyri frá Þýskalandi. Ráðherra lífeyrismála í Belgíu, Daniel Bacquelaine, hefur lýst yfir áhyggjum sínum af málinu og tekur undir með eftirlifendum úr fangabúðum nasista sem vöktu athygli á málinu, samkvæmt upplýsingum frá talskonu hans. Belgísk stjórnvöld geta þó ekki rannsakað málið, þar sem þau hafa engar opinberar tölur um fjölda þeirra sem þiggja lífeyrinn, auk þess sem óvíst er hvort þeir eru allir búsettir í Belgíu. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Pieter Paul Baeten, sem fer fyrir hópi eftirlifenda fangabúðanna, segir sorglegt að belgísk stjórnvöld fái ekki upplýsingar um málið. „Ég skil ekki hvernig Belgía og Þýskaland geta ekki skipst á þessum upplýsingum í Evrópu nútímans.“ Vill hópurinn að sett verði á fót nefnd beggja ríkja, sem rannsaki málið. Baeten, sem var fangi í útrýmingarbúðunum í Buchenwald í stríðinu, segir að nasistar hafi veitt belgískum liðsmönnum SS-sveitanna þýskan ríkisborgararétt 1941. „Núverandi stjórnvöld í þýskalandi fela sig bak við þá ákvörðun til að þurfa ekki að ljóstra upp um „samlanda“ sína.“

Árið 2012 sögðust þýsk stjórnvöld ekki geta staðfest að 2.500 belgískir fyrrverandi samverkamenn nasista þægju þýskan lífeyri. Skoða þyrfti skrá hvers og eins lífeyrisþega til að varpa ljósi á hversu margir þeirra hefðu starfað með nasistum í síðari heimsstyrjöldinni. Skrárnar væru hins vegar í vörslu sambandslandanna.

Í heimsstyrjöldinni síðari starfaði mikill fjöldi Belga með nasistum en eftir að bandamenn frelsuðu landið voru 57.000 belgískir samverkamenn nasista dæmdir. Voru Belgar ráðnir í bæði þýska herinn og SS-sveitirnar, auk þess sem margir aðstoðuðu við að senda gyðinga og andspyrnumenn í útrýmingarbúðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert