Berlusconi í hjartaaðgerð

Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu.
Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, þarf að gangast undir hjartaaðgerð eftir að hafa fengið hjartaáfall sem næstum reið honum að fullu.

Skipt verður um ósæðaloku í Berlusconi, sem er 79 ára gamall, um miðja næstu viku, að því er  fréttavefur BBC hefur eftir Alberto Zangrillo, lækni Berlusconis. „Ástand hans var alvarlegt þegar hann kom á spítalann. Líf hans var í hættu og hann vissi það,“ sagði Zangrillo.

Berlusconi var lagður inn á spítala á þriðjudag og hefur AFP-fréttastofan eftir Zangrillo að ástand hans sé alvarlegt og það sé einungis ein leið til að lagfæra það. „Það verður að skipta um lokuna með hefðbundinni hjartaaðgerð.“

Stjórnmálaflokkur Berlusconi hafði áður sagt að ástand hans væri „ekkert til að hafa áhyggjur af.“

Ottavio Alfieri, yfirmaður hjartaskurðlækninga við San Raffaele, mun gera aðgerðina sem talið er að taki um fjóra tíma.  Berlusconi mun því næst dvelja á gjörgæsludeild í 1–2 daga áður enn hann verður sendur á venjulega deild þar sem hann mun hefja endurhæfingu sína ef allt fer eins og best er á kosið.

„Ég býst við að hann verði kominn til fullrar heilsu eftir mánuð,“ sagði Zangrillo og bætti við að vel heppnuð aðgerð muni skila Berlusconi í „betra ástandi en áður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert