Taílendingar fagna því í dag að 70 ár eru liðin frá því að konungur landsins, Bhumibol Adulyadej, tók við völdum en Adulyadej er sá þjóðarleiðtogi sem hefur verið lengst við völd í heiminum.
Fögnuðurinn hófst með trúarathöfn í Bangkok sem 770 Búddamunkar tóku þátt í. Konungurinn er 88 ára gamall og hefur hann ekki sést opinberlega í marga mánuði vegna slæmrar heilsu. Taílendingar líta á hann sem helgan mann og er hann gríðarlega vinsæll meðal þegna sinna.
Í fyrradag undirgekkst hann hjartaaðgerð og að sögn talsmanns hallarinnar gekk hún vel. Konungurinn hefur að vísu eytt miklum tíma síðustu ár á sjúkrahúsi og er fylgst náið með heilsufari hans.
„Samband Taílendinga og konungsins er djúpt, það er eiginlega bara erfitt að útskýra það,“ sagði Winthai Suvaree, talsmaður konungsins, í samtali við Reuters. „Hann er faðir þjóðarinnar.“
Mörg hundruð manns söfnuðust saman fyrir utan höllina í morgun til þess að hylla konunginn en ekki er talið að hann muni koma fram opinberlega í tilefni afmælisins. Það virðist þó ekki hafa áhrif á aðdáunina.
„Ég vil að konunginum batni. Þannig sýni ég honum hollustu og það er allt í lagi þó hann sjái það ekki í dag,“ sagði hin 68 ára gamla Chonmanee Smativat í samtali við AFP. „Ég vil að hann viti að við elskum hann öll. Hann hefur gert svo mikið fyrir Taílendinga. Síðan ég var lítil höfum við séð hvað hann leggur hart að sér.“
Vinsældir konungsins koma að miklu leyti vegna þess hversu lengi hann hefur verið við völd en einnig því það er litið á hann sem úrskurðaraðila í stjórnmálum. Taílendingar hafa gengið í gegnum erfiða pólitíska tíma upp á síðkastið og nú er herstjórn við völd í landinu.
Þá er það bannað með lögum að gagnrýna konunginn eða konungsfjölskylduna.