„Hvers vegna var kennarinn minn drepinn?“

Hassan Khan sýnir mynd af eiginkonu sinni, Zeenat Bibi. Kveikt …
Hassan Khan sýnir mynd af eiginkonu sinni, Zeenat Bibi. Kveikt var í henni fyrir að giftast honum. AFP

Eiginmaður sextán ára pakistanskrar stúlku, sem var myrt af fjölskyldu sinni fyrir að giftast honum, segist ætla að gera allt sem í sínu valdi standi til að fá réttlæti fyrir unga eiginkonu sína.

Kveikt var í Zeenat Bibi á miðvikudag í borginni Lahore. Í vikunni á undan hafði hún gifst hinum tvítuga vélvirkja Hasan Khan gegn vilja fjölskyldu sinnar.

Móðir hennar, Perveen Bibi, hefur játað að hafa myrt dóttur sína, þó að enn eigi eftir að rannsaka málið. Aðdragandi þess og framkvæmd virðist enn nokkuð óljós. Fyrstu fréttir hermdu að stúlkan hefði verið brennd lifandi en nú telur lögreglan vísbendingar um að hún hafi verið kæfð fyrst. Niðurstaða úr krufningu er ekki væntanleg fyrr en síðar í þessum mánuði. 

Líkamsleifar Bibiar voru jarðsettar af tengdafjölskyldu hennar en enginn úr fjölskyldu hennar hafði sótt líkið.

„Ég er harðákveðinn í að halda til streitu lögsókn á hendur fjölskyldunni,“ segir Khan í samtali við AFP-fréttastofuna. „Það er núna hlutskipti mitt að fá fram réttlæti fyrir hana. Ef hinir seku verða sakfelldir mun það færa sál minni ró og frið.“

Khan segist hafa kynnst eiginkonu sinni í grunnskóla. Hann telur að móðir hennar, Perveen, sé að hylma yfir með bróður sínum og syni, sem hafi í raun framið morðið.

Morðið hefur vakið gríðarlega hörð viðbrögð víða um heim. Ekki síst vegna þess að svo virðist sem svokölluð heiðursmorð, þar sem fjölskyldur drepa ungar konur til að forðast skömm, séu annaðhvort að færast í vöxt eða að ná meira eyrum fólks en áður. Hundruð heiðursmorða eru framin í Pakistan á hverju ári.

Unga eiginkonan, Zeenat, kenndi börnum í heimabæ sínum um Kóraninn. Móðir eins barnsins sem hún kenndi segir dóttur sína hrædda eftir morðið. 

„Hún spyr margra spurninga áður en hún fer að sofa. Hún spyr af hverju var kennarinn hennar hafi verið drepinn og hvers vegna mamma hennar hafi gert það,“ segir Rani Bibi. Hún er með sama eftirnafn og Zeenat, en þó alls óskyld henni. „Ég segi dóttur minni að hafa engar áhyggjur. Hún sé elskuð.“

Pakistanar breyttu hegningarlögum sínum árið 2005 á þann veg að karlmönnum sem drepa kvenkyns ættingja sína er gert að sæta refsingu og geti ekki vísað til heiðurs þegar morð eru framin. Hins vegar var það sett í hendur dómara að kveða upp þyngd refsingarinnar, m.a. með tilliti til þess hvort að aðrir ættingjar fórnarlambsins hefðu fyrirgefið morðingjanum. Þarna er því glufa í lögunum sem er enn misnotuð. 

 Stjórnarandstöðuþingmaðurinn Sherry Rehman hefur þrýst á ríkisstjórnina að breyta lögunum enn frekar. „Hvað tefur? Þrjár konur hafa verið brenndar til dauða. Þetta er hræðileg þróun,“ segir hún. „Það er ekki eins og þúsundir hafi ekki áður verið drepnar. Það er ekki eins og þessi lög muni koma alfarið í veg fyrir þetta. En ríkið verður að taka fast á þessum málum.“

Rehman segir að forsætisráðherra Pakistans, Nawaz Sharif, hafi lofað því að þrýsta á um umbætur á lögunum eftir að heimildarmynd um heiðursmorð vann til Óskarsverðlauna í febrúar í ár. Hann hafi hins vegar ekkert aðhafst enn þá.

Rehman telur skýringuna þá að ríkisstjórnin sé að ræða málið við stjórnmálaflokkana sem hafa íslömsk gildi að leiðarljósi í sinni stefnu. Þeir eru sagðir hafa mikil vægi á þinginu þó að þeir hafi ekki nema 5% þingsætanna.

Þeir sem munu fremja morð í nafni heiðurs njóta „aukins refsileysis – þeir sjá að þrátt fyrir reiði almennings þá líta ráðamenn undan,“ segir Rehman.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert