AR-15: Vopnið sem árásarmenn nota

AR-15-árásarriffillinn vinsæli.
AR-15-árásarriffillinn vinsæli. AFP

Omar Mateen, maðurinn sem skaut að minnsta kosti 49 manns til bana á skemmtistað fyrir hinsegin fólk í Orlando í gær, notaði sama árásarriffil og notast hefur verið við í öllum mannskæðustu skotárásum í Bandaríkjunum á undanförnum árum – AR-15.

Mateen var með 223 kalíbera AR-15 árásarriffil og Glock-skammbyssu í fórum sínum þegar hann hóf skothríðina á skemmtistaðnum Pulse um klukkan tvö eftir miðnætti að staðartíma. Vopnin fundust snemma sunnudagsmorguns.

Maðurinn keypti riffillinn á löglegan hátt í síðustu viku.

Riffill af nákvæmlega sömu gerð, AR-15, var notaður til að myrða fjórtán manns og særa 21 í skotárásinni í San Bernardino í Kaliforníu í desember á síðasta ári. Að sama skapi var maðurinn sem skaut tólf manns til bana í kvikmyndahúsi í Aurora í Colorado árið 2012 vopnaður AR-15 riffli.

Og þá var einnig notast við riffillinn alræmda í skotárásinni í grunnskólanum Sandy Hook í Newtown í Connectitcut sama ár. Tuttugu og sex manns létust í þeirri árás, tuttugu börn og sex fullorðnir.

Taka skal fram að hér eru aðeins fáeinar árásir nefndar í dæmaskyni. Athugun tímaritsins Mother Jones hefur leitt í ljós að notast hefur verið við riffil af þessu tagi í að minnsta kosti tíu mannskæðum skotárásum í Bandaríkjunum á undanförnum fimm árum, að því er segir í frétt Reuters.

Árásin í Orlando í gær er sú mannskæðasta til þessa.

Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum Pulse í Orlando.
Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum Pulse í Orlando. AFP

Hannaðir til hernaðarnotkunar

AR-15-riffillinn var fyrst kynntur til sögunnar í byrjun sjöunda áratugar seinustu aldar. Hann var þá framleiddur að beiðni bandaríska hersins en hermenn notuðust til að mynda við riffilinn í Víetnamstríðinu. Var hann fyrst og fremst hannaður fyrir hernaðarnotkun. Nú á dögum er riffillinn hins vegar sá vinsælasti í Bandaríkjunum og hefur sala á honum aukist, ef eitthvað er, undanfarin ár.

Talið er að salan hafi fyrst tekið við sér eftir skotárásina mannskæðu í Sandy Hook fyrir fjórum árum. „AR-15 rifflar eru í raun komnir í tísku. Ungu kynslóðinni líkar vel við þá, svona árásarriffla,“ sagði eigandi byssubúðar í Pasadena í Maryland í samtali við New York Times. Athygli hefur vakið að sala á byssum eykst í Bandaríkjunum í hvert sinn sem mannskæð skotárás er framin. Ótti sumra um að stjórnvöld herði löggjöf um byssueign er helsti orsakavaldurinn.

Stuðningsmenn þess að byssulöggjöfin verði hert halda því aftur á móti fram að byssuframleiðendur notfæri sér skotárásir af þessu tagi til þess að ala á ótta byssueigenda. Þeir veki ótta um að stjórnvöld muni taka af þeim byssurnar. Það leiðir aftur til þess að byssueigendur hamstra skot­vopn, ef svo má segja, með til­heyr­andi hagnaði fyr­ir framleiðendurna.

AFP

Auðvelt að nota hann

AR-15 er það sem kallað er hálfsjálfvirkur riffill. Hann er ekki með sjálfvirka hleðslu en hins vegar er bæði fljótlegt og auðvelt að hlaða hann. Landssamtök byssueigenda í Bandaríkjunum, NRA, hafa til þessa ekki skilgreint riffilinn sem árásarriffil, heldur flokkað hann sem riffil til afþreyingar og jafnvel íþróttaiðkunar. Rökin þar að baki eru þau að riffillinn sé ekki, eins og áður sagði, sjálfvirkur.

Samtök sem berjast gegn aðgengi almennings að skotvopnum sem þessum hafa aftur á móti bent á að ekki megi aðskilja AR-15-riffla, sem og önnur hættuleg skotvopn sem ekki hafa sjálfvirka hleðslu, frá hefðbundnum sjálfvirkum árásarrifflum. Ekki sé hægt að gera greinarmun þar á milli. Það sé of mikil einföldun.

Það er ekki að ástæðulausu að árásarmenn útvega sér riffilinn og nota hann í skotárásum. Richard Frankel, fyrrum starfsmaður bandarísku alríkislögreglunnar FBI, segir í samtali við ABC News að ekki þurfi mikla þjálfun til þess að geta notað AR-15-riffil. Einnig sé aðgengi að honum gott. „Það er mjög auðvelt að nota hann. Það er auðvelt að hlaða hann, miða honum og skjóta,“ segir hann.

Riffillinn sé til sölu víða um Bandaríkin. Mörg fyrirtæki framleiði mismunandi gerðir og týpur af honum.

Bandaríska alríkislögreglan hafði tvívegis haft Omar Mateen til rannsóknar.
Bandaríska alríkislögreglan hafði tvívegis haft Omar Mateen til rannsóknar. AFP

Þrjátíu skot á innan við mínútu

Frankel segir jafnframt líklegt að þeir, sem hafi í hyggju að fremja voðaverk sem þessi, kanni það fyrst hvaða skotvopn árásarmenn hafi áður notast við. AR-15 riffillinn sé þar efstur á blaði.

Hægt er að skjóta þrjátíu skotum úr byssunni á innan við mínútu. Þá fyrst tæmist hleðslan, en Frankel segir það taka enga stund að hlaða byssuna á nýjan leik. „Árásarmaður gæti auðveldlega skotið þrjátíu sinnum á innan við mínútu og í kjölfarið hlaðið byssuna á fljótlegan hátt til þess að skjóta meira,“ segir hann.

Þessi staðreynd, að byssan getur valdið svo miklum skaða á örskömmum tíma, er helsta þrætueplið í dómsmáli sem fjölskyldur fórnarlamba í skotárásinni í Sandy Hook árið 2012 hafa höfðað á hendur vopnaframleiðandanum Bushmaster Firearms International. Fjölskyldurnar halda því fram að riffillinn, sem hinn tvítugi Adam Lanza notaði til verksins, hafi ekki átt að vera í höndum almennings. Hann hafi verið sérstaklega hannaður fyrir hernaðarnotkun. Fjölskyldurnar benda á að alltof mörg dæmi séu um að menn, sem eru jafnvel andlega veikir, komist auðveldlega yfir vopnið og beiti því.

„Aftur og aftur hafa andlega veikir einstaklingar og glæpamenn komist yfir AR-15 með auðveldum hætti,“ segir í stefnunni. „Þetta er hernaðartól sem var hannað fyrir vígvöllinn en er markaðssett og selt til almennings.“

Remington Outdoor Co., móðurfélag vopnaframleiðandans, hefur neitað að tjá sig um málið. Talsmaður þess vísaði þó til laga sem sett voru árið 2005 þess efnis að vopnaframleiðendur geti ekki orðið skaðabótaskyldir í kjölfar mannskæðra skotárása.

Gert er ráð fyrir að málið verði tekið fyrir af dómstól í Connecticut í apríl 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert