Auka öryggisgæslu á Oslo Pride

AFP

Um næstu helgi fara fram hinsegin dagarnir Oslo Pride í Ósló. Hafa löggæsluyfirvöld nú ákveðið að herða öryggisgæslu á hátíðinni vegna atburðanna í Orlando í Flórída um helgina.

Sjá frétt mbl.is: Hvað gerðist á Pulse um nóttina? 

Um 25 þúsund gestir mættu í gönguna sjálfa í fyrra og er búist við að lágmarki svipuðum fjölda í ár. 

„Við höfum ákveðið að bæta við mannafla sérstaklega vegna skrúðgöngunnar og á svæðinu verða fleiri einkennisklæddir lögreglumenn en áður var gert ráð fyrir. Það er mikilvægt að gestirnir fái öryggistilfinningu, jafnvel þótt atburðir eins og þessi í Bandaríkjunum séu til þess eins fallnir að gera fólk óttaslegið,“ segir Johan Fredriksen, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Ósló í samtali við Aftenposten.

Ekki verður aðeins aukin gæsla í skrúðgöngunni sjálfri heldur á allri hátíðinni. „Við munum fylgjast með allri hátíðinni en við óttumst ekki hið óþekkta. Það þýðir að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi gesta. Opið og frjálst samfélag þýðir að ekki er hægt að lofa að ekkert muni gerast, en ef við fáum einhverjar upplýsingar þá munum við meta þær og grípa til aðgerða sé þess þörf,“ bætir Fredriksen við.

„Markmið okkar er að sjá til þess að hátíðargestir verði öruggir og þannig skapa ramma fyrir fögnuð fjölbreytileikans og virðingu fyrir öllum,“ segir Fredriksen að lokum.

Copenhagen Pride og sendiráðið með minningarathöfn

Kollegar Oslo Pride í Danmörku, skipuleggendur Copenhagen Pride, standa í dag fyrir minningarathöfn fyrir framan bandaríska sendiráðið í borginni. Er athöfnin gerði í samstarfi við sendiráðið. Hinseginfánanum verður flaggað og verður kveikt á kertum til að minnast hinna látnu. Copenhagen Pride hátíðin fer fram í ágúst á þessu ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert