Spretthlauparinn Oscar Pistorius getur ekki borið vitni í eigin réttarhöldum þar sem hann þjáist af kvíða og þunglyndi. Réttarhöld yfir Pistorius hófust í Pretoria, höfuðborg Suður-Afríku, í dag.
Pistorius var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi fyrir að valda dauða kærustu sinnar, Reevu Steenkamp. Í desember í fyrra ákvað dómari hins vegar að sakfella hann fyrir morð og nú er komið að því að ákveða refsingu hans.
Pistorius kom í dómsal í dag í lögreglufylgd. Sálfræðingurinn Jonathan Scholtz, sem veitir sérfræðiálit fyrir vörnina, segir Pistorous þó ekki geta borið vitni við réttarhöldin þar sem hann þjáist af kvíða og þunglyndi í kjölfar þess að hafa banað Steenkamp.
Segir á fréttavef CNN að verjendur Pistorius séu með þessu að reyna að forða honum frá lengri fangelsisvist og að reyna að fá Pistorius þess í stað dæmdan til spítalavistar. Lágmarksrefsing fyrir morð í Suður-Afríku er 15 ár en dómarar geta þó tekið geðþóttaákvörðun um að veita vægari dóm.
Í vitnisburði sínum sagði Scholtz að Pistorius væri enn á lyfjum vegna áfallastreituröskunar og þunglyndis og að hann sækti huggun í þá vitneskju að Steenkamp væri nú hjá guði.
Sagði hann að Pistorius, sem var þekktur vopnasafnari, vildi aldrei snerta á byssu framar og að hann hefði selt allt vopnasafn sitt.