Engar sannanir um aðild Ríkis íslams

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að engar beinar sannanir séu fyrir því að Omar Mateen, sem skaut 49 manns til bana á skemmtistað í Orlando í gær, hafi lútið stjórn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Hann sagði á fréttamannafundi síðdegis í dag að skotárásin, sem er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna, væri rannsökuð sem hryðjuverk.

Bandaríkjaforseti benti á að Mateen gæti hafa verið undir áhrifum íslamskrar öfgastefnu, sem hann gæti hafa fengið að kynnast á internetinu, en ekkert benti til þess að honum hefði verið stjórnað af samtökunum alræmdu. Hann væri ekki hluti af stærri fléttu.

Ríki íslams lýstu í morgun yfir ábyrgð á ódæðinu í Orlando. „Einn af hermönnum kalífadæmisins“ hafi framið voðaverkin.

Fréttamiðill samtakanna, Amaq, sagði í gær að Mateen hefði verið vígamaður Ríkis íslams. Bandarískir fjölmiðlar hafa fullyrt að áður en Mateen lét til skarar skríða hafi hann hringt í bandarísku neyðarlínuna, 911, og lýst yfir hollustu sinni við Ríki íslams.

Bandaríska alríkislögreglan hefur tvívegis haft hann til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka