Verði hluti af skýrslu Bandaríkjaþings um hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum 11. september 2001 gerður opinber mun hann hreinsa Sádi-Arabíu af allri ábyrgð. Þetta segir John Brennan, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA.
Um er að ræða 28 blaðsíður úr skýrslu þingmannanefndar frá árinu 2002. Síðurnar hafa aldrei verið birtar og hvílir því algjör leynd yfir því hvaða upplýsingar þær hafa að geyma.
Orðrómur hefur verið á kreiki um að þar komi fram upplýsingar um aðild yfirvalda í Sádi-Arabíu að árásunum.
Þá eru blaðsíðurnar jafnframt miðpunktur deilu um hvort fjölskyldur fórnarlamba árásanna geti höfðað mál á hendur stjórnvöldum í Sádi-Arabíu.
Stjórnvöld þar í landi hafa hafnað ásökunum um að aðild þeirra að árásunum. Enginn fótur sé fyrir slíku.
Fimmtán af flugræningjunum nítján voru sádi-arabískir ríkisborgarar.
Fyrrum öldungardeildarþingmaðurinn Bob Graham, sem stýrði þingmannanefndinni sem vann skýrsluna, hefur margoft staðhæft að stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafi veitt flugræningjunum aðstoð.
Brennan neitar því hins vegar staðfastlega. „Þessar 28 blaðsíður verða að ég held birtar og ég tel það gott að þær verði birtar. Fólk ætti ekki að líta á þær sem merki um hlutdeild Sádi-Arabíu í árásunum,“ sagði Brennan í samtali við sádi-arabísku sjónvarpsstöðina Arabiya TV.
Hann bætti því jafnframt við að þingmannanefndin hefði rannsakað málið ofan í kjölinn, sér í lagi ásakanirnar um aðild Sádi-Arabíu að árásunum. Niðurstaða hennar hafi verið sú að ekkert benti til þess að ríkisstjórnin, einhver opinber stofnun eða háttsettir embættismenn í Sádi-Arabíu hefðu stutt hryðjuverkaárásirnar. Enginn fótur væri fyrir ásökununum.
Í maímánuði samþykkti öldungadeild Bandaríkjaþings frumvarp sem heimilar Bandaríkjamönnum að höfða mál á hendur stjórnvöldum í Sádi-Arabíu vegna árásanna.
Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu hefur varað við því að samþykkt frumvarpsins gæti leitt til þess að stjórnvöld þar í landi dragi úr fjárfestingum sínum í Bandaríkjunum.
Graham hefur sagt að Hvíta húsið muni ákveða í þessum mánuði hvort blaðsíðurnar 28 úr skýrslunni verði gerðar opinberar.