„Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera“

AFP

Vararíkisstjóri Texas, Dan Patrick, hefur eytt færslu af Twitter-reikningi sínum, sem hann birti á sunnudagsmorgun í kjölfar skotárásarinnar á næturklúbbinn í Orlando. Færslan var tilvitnun í biblíuvers úr Galatabréfum Nýja testamentisins, þar sem segir: „Villist ekki. Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ 

Twitter færsla Dan Patrick, sem birtist morguninn eftir árásina í …
Twitter færsla Dan Patrick, sem birtist morguninn eftir árásina í Orlando. Skjáskot af Twitter

Talsmenn vararíkisstjórans hafa svarað fyrir færsluna og sagt að hún hafi verið ákveðin mörgum dögum fyrir árásina, en hann birtir biblíuvers alla sunnudagsmorgna. Hefur Patrick þó mátt sæta harðri gagnrýni frá netverjum, en hann hefur m.a. barist gegn hjónaböndum samkynhneigðra.

Í umfjöllun á vefsíðu Washington Post segir að margir stjórnmálamenn vestanhafs, sem barist hafa gegn réttindum samkynhneigðra, hafi minnst fórnarlamba árásarinnar í Orlando, en hafi aðallega beint athyglinni að hryðjuverkunum. Þó hafi Ted Cruz, sem barðist fyrir útnefningu rebúplikana í forsetakosningunum í ár, sagt í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni, sem sneri þó aðallega að hryðjuverkum og ríki íslams: „Ef þú ert demókrati og vilt styðja hinsegin fólk, sýndu þá hugrekki og berstu gegn þeirri grimmilegu hugmyndafræði sem hefur gert okkur Bandaríkjamenn að skotmarki sínu,“ en Cruz hefur verið ötull baráttumaður gegn hjónaböndum samkynhneigðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert