Þurfa að bregðast við með afli

Donald Trump vill verða næsti forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump vill verða næsti forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump segir að Bandaríkin verði að bregðast við árásinni í Orlando „með afli“ og sakaði ríkisstjórn Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, um að halda lögreglu niðri með aðgerðum sínum. Þá ítrekaði hann hugmyndir sínar um bann við ferðalögum erlendra múslima til Bandaríkjanna. „Við þurfum að bregðast við þessari árás á Bandaríkin sem eitt, sameinuð þjóð, með afli, tilgangi og staðfestu,“ sagði Trump í dag. Árásin í Orlando er blóðugasta árás í Bandaríkjunum síðan 11. september 2001. Fjörutíu og níu létu lífið og tugir særðust.

„Við getum ekki talað í kringum hlutina, við þurfum að ræða þá beint,“ sagði Trump enn fremur.

Sakaði hann ríkisstjórn Obama og Hillary Clinton um að lifa í „afneitun“ og sagði Bandaríkjamenn eiga skilið að vita „hvernig öfgaíslam er að koma til okkar.“

Clinton notaði hins vegar daginn í dag til þess að hvetja til samkenndar  og vitnaði í heimsókn George Bush, þáverandi forseta Bandaríkjanna, í miðstöð múslima eftir árásirnar 2001. Þar sagði  hann fólkinu að allar „hefndaraðgerðir“ sem beindust gegn múslimum í Bandaríkjunum fengu ekki að líðast.

Þá sagði Clinton að dagurinn í dag „ætti ekki að snúast um stjórnmál“ og ítrekaði kallið eftir skotvopnabanni.

„Það er mitt mat að stríðsvopn hafi engan tilgang á götum úti,“ bætti hún við.

Trump sakaði andstæðing sinn um að vilja „taka bandarískar byssur í burtu“ og „leyfa öllum að slátra okkur.“ Þá kallaði hann eftir endurskoðun á innflytjendastefnu Bandaríkjanna.

Clinton sagði að dagurinn í dag ætti ekki að snúast …
Clinton sagði að dagurinn í dag ætti ekki að snúast um stjórnmál en ítrekaði kall sitt eftir hertri byssulöggjöf í landinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert