Vilja herða lög um byssueign

Fjöldi fólks minntist fórnarlambanna í Orlando í dag.
Fjöldi fólks minntist fórnarlambanna í Orlando í dag. AFP

Skotárásin á skemmtistað í Orlando í Flórída í gær hefur enn á ný hrundið af stað umræðu um hvort banna eigi hættuleg skotvopn í Bandaríkjunum. Hillary Clinton, forsetaefni demókrata, vill endurvekja vopnabann sem féll úr gildi fyrir meira en tíu árum en líklegt þykir að hún muni mæta mikilli andstöðu meðal repúblikana.

Skotárásin er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna en alls skaut árásarmaðurinn, hinn 29 ára gamli Omar Mateen, 49 manns til bana áður en hann féll sjálfur í átökum við lögreglu.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði þjóð sína í gær og gagnrýndi þá bandaríska þingið harðlega fyrir að hafa ekki reynt að draga úr aðgengi fólks að hættulegum skotvopnum. Enn væri of auðvelt fyrir almenna borgara að nálgast slík vopn. „Að gera ekkert er líka ákvörðun,“ sagði Obama.

Hann hefur í valdatíð sinni reynt að herða byssulöggjöf landsins, en án árangurs. Landssamtök bandarískra byssueigenda, NRA, hafa beitt sér af alefli gegn áformum Obama og þá hefur Obama enn fremur mætt mikilli fyrirstöðu í þinginu, þar sem repúblikanar hafa enn tögl og hagldir. Hann reyndi síðast árið 2013 að breyta byssulöggjöfinni og leggja frekari takmarkanir við byssueign. Það tókst ekki, ekki frekar en aðrar tilraunir demókrata á undanförnum árum.

Skammbyssur algengasta morðvopnið

Eins og kunnugt er notaði Mateen AR-15 árásarriffil sem hann keypti löglega aðeins fáeinum dögum áður en hann lét til skarar skríða. Rifflarnir eru afar vinsælir vestanhafs, en talið er að Bandaríkjamenn eigi um fimm til tíu milljónir slíka. Það er þó aðeins dropi í hafið miðað við þær 300 milljónir skotvopna sem eru alls í eigu Bandaríkjamanna um allt land.

Þrátt fyrir að notast hafi verið riffilinn í flestum mannskæðustu skotárásunum í landinu undanfarin ár, eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag, þá er hann ekki algengt morðvopn í stóra samhenginu. Skammbyssur reyndust morðvopnið í 48% allra morða á árunum 2010 til 2014, samkvæmt upplýsingum frá bandarísku alríkislögreglunni, en rifflar komu aðeins við sögu í 2,4% tilvika. Fjórfalt fleiri létu lífið af völdum hnífa á tímabilinu.

Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum Pulse í Orlando.
Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum Pulse í Orlando. AFP

Vill endurvekja vopnabannið

Í kjölfar skotárásarinnar í Orlando hafa fjölmargir demókratar, þar á meðal forsetaefni þeirra, Hillary Clinton, kallað eftir því að bann við eign árásarvopna verði endurvakið. Bannið var í gildi á árunum 1994 til 2004.

„Þau [voðaverkin] minna okkur enn einu sinni á að stríðsvopn eiga ekki heima á götunum,“ sagði Clinton.

Voðaverkin hafa vakið umræðu um vopnaeign í Bandaríkjunum.
Voðaverkin hafa vakið umræðu um vopnaeign í Bandaríkjunum. AFP

Bannið margumrædda náði til sjálfvirkra skotvopna sem og skotvopna með stórum hleðslum margra umferða skothylkja. Það tók fimm ár að koma banninu í gegnum þingið en til að það tækist voru gerðar ýmsar málamiðlanir, meðal annars þess efnis að bannið stæði aðeins til ársins 2004. Þá féll það úr gildi en bandaríska þingið neitaði að framlengja það og hefur allar götur síðan neitað að lögfesta bannið aftur.

Áhrif vopnabannsins óljós

Athuganir sérfræðinga eru ekki allar á einn veg um hvort vopnabannið hafi haft mikil áhrif. Byssuframleiðendur fundu leiðir til þess að gera vopnin þannig úr garði að þau féllu ekki undir bannið og þá hefur glæpatíðni lækkað jafnt og þétt frá því í byrjun síðasta áratugar tuttugustu aldar, hvort sem bannið var í gildi eða ekki, að því er segir í fréttaskýringu Reuters. Mannskæðum skotárásum hefur hins vegar fjölgað eftir að bannið féll úr gildi árið 2004.

Einnig hefur verið vísað til athugunar sem Háskóli Pennsylvaníu gerði á banninu. Hún sýndi að það hafði haft takmörkuð áhrif á glæpi þar sem skotvopn komu við sögu. Bentu rannsakendur á að undantekningar frá banninu hefðu verið of margar. Bannið hefði til að mynda ekki tekið til sjálfvirkra vopna og byssna með stórum hleðslum framleiddra fyrir 1994 sem þýddi að 1,5 milljónir sjálfvirkra skotvopna voru áfram í umferð. 

Samkvæmt skoðanakönnunum vill um helmingur Bandaríkjamanna, á milli 44 og 57%, endurvekja vopnabannið. Margir vilja þó fremur að yfirvöld leggi fyrst frekari hömlur við byssueign hættulegra eða veikra manna og auki til að mynda bakgrunnseftirlit, áður en lagt sé blátt bann við byssueign almennings.

Sex ríki banna nú árásarvopn og tvö til viðbótar, Minnesota og Virginía, leggja bann við byssueign einstaklinga undir átján ára aldri. Sérfræðingar telja hins vegar erfitt að segja til um hvort bannlögin hafi haft tilætluð áhrif, enda geta þeir sem vilja auðveldlega keypt sér slík vopn í öðrum ríkjum.

Hillary Clinton, forsetaefni demókrata, vill endurvekja vopnabannið frá 2004.
Hillary Clinton, forsetaefni demókrata, vill endurvekja vopnabannið frá 2004. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert