Ebba bar vitni í máli Pistoriusar

Barry Steenkamp, faðir Reeva Steenkamp segist eiga erfitt með að …
Barry Steenkamp, faðir Reeva Steenkamp segist eiga erfitt með að fyrirgefa Pistorius. AFP

Ebba Guðmundsdóttir bar í dag vitni í máli spretthlauparans Oscars Pistoriusar, en réttarhöld standa nú yfir í máli hans. Pistorius var dæmd­ur í fimm ára fang­elsi fyr­ir mann­dráp af gá­leysi fyr­ir að valda dauða kær­ustu sinn­ar, Reevu Steenkamp, en í  des­em­ber í fyrra ákvað dóm­ari aftur á móti að sak­fella hann fyr­ir morð og er nú komið að því að ákveða refs­ingu hans. 

Ebba bar karaktervitni við réttarhöldin og sagði hún frá vináttunni sem þróaðist milli Pistoriusar og fjölskyldu sinnar, þegar í ljós kom að hún væri ólétt að barni sem myndi fæðast fótalaust.

„Hann lét okkur fá símanúmerið sitt og bauð okkur að hafa samband við sig hvenær sem við þyrftum á að halda, sem við gerðum og það var dásamlegt,“ sagði Ebba í dómsal.

Hún sagði Pistorius hafa veitt syni sínum mikinn innblástur og að þau hefðu í þrígang séð hann keppa á Ólympíuleikum fatlaðra.

Pistorius hafi þá eitt sinn gefið syni hennar gullmedalíu og sagt: „Þetta er fyrir þig meistari.“

Ebba Guðmundsdóttir bar karaktervitni við réttarhöldin.
Ebba Guðmundsdóttir bar karaktervitni við réttarhöldin. mbl.is/ Ásdís Ásgeirsdóttir

Brotnaði niður við réttarhöldin

Faðir Steenkamp bar einnig vitni fyrir rétti í dag og brotnaði hann niður í vitnastúkunni og sagði að Pistorius yrði að gjalda fyrir glæp sinn.

„Mér hefur reynst erfitt að fyrirgefa …. mér finnst Oscar þurfa að gjalda fyrir það sem hann gerði. Hann verður að gjalda fyrir glæp sinn,“ sagði Barry Steenkamp og grét.

Hann sagðist þá í sífellu hugsa um óttann og sársaukann sem dóttir hans hljóti að hafa fundið fyrir á síðustu andartökum lífs síns.

„Þetta hlýtur að hafa verið alveg hræðilegt.“

Kvaðst hann einnig vera þeirrar skoðunar að þau Pistorius og Steenkamp hefðu deilt nóttina sem Steenkamp lést.

Pistorius grúfði höfuð í höndum sér og virtist gráta er Steenkamp bar vitni.

Dómarinn Thokozile Masipa, sem dæmdi Pistorius sekan um manndráp af gáleysi, dæmir einnig í málinu nú og er búist við að úrskurður hans liggi fyrir á föstudag.

Lágmarksrefsing fyrir morð í Suður-Afríku er 15 ára fangelsisvist, en dómarar geta þó úrskurðað sakborninga til skemmri fangelsisvistar m.a. vegna þess tíma sem þeir hafa þegar setið inni eða vegna annarra aðstæðna, t.d. vegna fötlunar.

Pistorius hefur verið í stofufangelsi frá því í október á síðasta ári, en áður hafði hann setið ár í fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka