„Ég er næstur, ég er dauður“

Angel Colon ræddi við blaðamenn í dag.
Angel Colon ræddi við blaðamenn í dag. AFP

Þegar að Angel Colon lá á gólfi skemmtistaðarins Pulse og hlustaði á árásarmanninn skjóta hreyfingalaus lík allt í kringum sig var hann viss um að hann væri næstur og að það væri komið að honum að deyja. Með þrjár byssukúlur í fótleggnum varð hann undir hópi fólks sem reyndi að flýja. Hann var síðan dreginn út af lögreglumanni.

„Eina sem ég gat gert var að liggja í jörðinni á meðan allir hlupu ofan á mér að reyna að komast út,“ sagði Colon í dag þegar hann ræddi við fjölmiðla ásamt neyðaraðilum sem björguðu lífi hans.

„Það eina sem ég heyrði voru skot, eitt af öðru og öskrandi fólk, fólk að kalla eftir hjálp.“

Fjörutíu og níu létu lífið í árásinni á Pulse og er hún blóðugasta fjöldaskotárás í sögu Bandaríkjanna. Colon var á klúbbnum ásamt hópi vina og rifjaði atburðina upp við sjúkrahús í Orlando í dag.

„Við vorum að skemmta okkur konunglega. Við vorum þarna bara til þess að fá okkur drykk. Klukkan var rétt orðin tvö, við vorum að kveðja. Ég var að faðma alla og þetta var frábært kvöld,“ sagði Colon. „Ekkert drama, bara bros og hlátur.“

Rétt áður en staðnum átti að loka hófst árásin. Colon var skotinn í fótlegginn. „Ég var skotinn þrisvar í fótlegginn þannig ég féll í jörðina. Ég reyndi að komast aftur upp en allir byrjuðu að hlaupa. Ég varð undir og fótleggurinn minn brotnaði. Þannig að á  þessum tímapunkti gat ég ekkert gengið,“ sagði Colon.

Colon hélt á tímabili að hann hefði sloppið undan árásarmanninum þegar hann fór inn á annan hluta staðarins og hélt áfram að skjóta.

„Hann fer inn í annað herbergi og ég heyri hann skjóta. Ég hélt að ég væri hólpinn á þessum tímapunkti,“ sagði Colon. „En svo heyrði ég hann koma aftur og hann skaut alla sem voru þegar dánir á gólfinu til að sjá til þess að þeir væru dánir,“ útskýrði Colon.

„Ég heyri byssuskotin nálgast og ég lít upp og hann skýtur stelpu við hliðina á mér. Og ég ligg þarna bara og hugsa „Ég er næstur, ég er dauður.“

Árásarmaðurinn skaut Colon tvisvar til viðbótar og miðaði á höfuð hans en hitti ekki. Fór skotið sem betur fer í hönd hans og sagðist Colon þakka Guði fyrir það. „En þá skýtur hann mig aftur í mjöðmina.“

Árásin hefur vakið mikla reiði og umræðu um byssulöggjöf í Bandaríkjunum en það tók lögreglu þrjár klukkustundir að yfirbuga árásarmanninn.

Kona minnist fórnarlambanna í Orlando.
Kona minnist fórnarlambanna í Orlando. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka