Heimsótti Pulse nokkrum sinnum fyrir árásina

Omar Mateen heimsótti Pulse nokkrum sinnum áður en hann réðst …
Omar Mateen heimsótti Pulse nokkrum sinnum áður en hann réðst inn á skemmtistaðinn. AFP

Lögregla í Orlando kannar nú frásagnir af því að Omar Mateen hafi komið nokkrum sinnum á skemmtistaðinn Pulse, þar sem hann skaut 49 manns til bana og særði 53 aðfaranótt sunnudags. Einnig er til athugunar hvort Mateen hafi notað sérstakt app-forrit sem samkynhneigðir nota til að hafa samskipti sín á milli.

Mateen sást nokkrum sinnum á Pulse áður en hann réðst þar til atlögu að sögn fréttastofu CBS News, sem hefur eftir lögreglumanni sem þekkir til rannsóknarinnar að gestir skemmtistaðarins segist hafa séð Mateen þar áður.

Staðarblaðið The Orlando Sentinel sagði að a.m.k. fjóra hafa greint frá því að þeir hefðu séð Mateen sitja einan að drykkju á Pulse. Einn fastagesta staðarins, Ty Smith, sagði blaðinu frá því að hann hefði séð Mateen þar a.m.k. 12 sinnum. „Stundum settist hann út í horn og sat þar einn að drykkju. Við önnur tækifæri varð hann svo fullur að hann varð hávær og dólgslegur,“ sagði Smith.

„Við töluðum ekki mikið við hann en ég man að hann talaði stundum um pabba sinn. Hann sagði okkur að hann ætti konu og barn.“

Annar fastagestur Pulse, Kevin West, sagði í viðtali við Los Angeles Times að Mateen hefði sent sér skilaboð í nokkur skipti í gegnum app fyrir samkynhneigða og að þau samskipti hefðu verið óregluleg og náð yfir um eins árs tímabil.

Bauð bekkjarfélaga á stefnumót

Sjónvarpsstöðin WFTV9 var með viðtal við fyrrverandi bekkjarfélaga Mateen, sem er samkynhneigður, og hann sagði að Mateen hefði boðið sér á stefnumót eftir að þeir hefðu farið saman á nokkra bari fyrir samkynhneigða.

CNN-fréttastofan spurði fyrrverandi eiginkonu Mateen, Sitora Yusufiy, hvort hann gæti hafa verið samkynhneigður og svaraði hún því til eftir nokkra þögn að hún vissi það ekki.

Lögregluyfirvöld í Orlando hafa neitað að tjá sig um málið, en nokkrir hafa bent á að Pulse kunni að hafa orðið fyrir valinu hjá Mateen af því að hann þekkti þar vel til.

Faðir Mateen, Seddique Mateen, sagði í viðtali við New York Daily News að sonur hans hafi ekki verið samkynhneigður, en áður hafa borist fregnir af því að Mateen hafi reiðst mikið við að sjá tvo menn kyssast. Vinir og samstarfsmenn Mateen hafa þá lýst honum sem manni með geðhvarfasýki, sem hafði mikla fordóma í garð samkynhneigðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert