Mateen keypti árásarriffil löglega

Omar Mateen.
Omar Mateen. AFP

Eftir að Omar Mateen hóf skothríð inni á skemmtistaðnum Pulse í Orlando í Flórída á sunnudag og myrti þar 49 manns, hafa margir spurt sig hvernig í ósköpunum hann gat komist yfir skotvopn. Svarið er einfalt: Hann keypti þau löglega.

Auðvelt þykir að komast yfir skotvopn í Flórída. Skotvopnalöggjöfin í ríkinu er ekki talin ströng og getur í raun hvaða fullorðni maður sem er keypt sér þar skotvopn, svo lengi sem hann hefur ekki verið sakfelldur fyrir glæpsamlegt athæfi. Ekki skipti til að mynda máli þótt bandaríska alríkislögreglan hefði tvívegis haft Mateen til rannsóknar. Hann gat samt keypt vopnin án vandkvæða.

Bandaríska alríkislögreglan hefur staðfest að Mateen var vopnaður AR-15-árásarriffli, Glock-skammbyssu og sprengiefni þegar hann lét til skarar skríða.

Fram hefur komið í fjölmiðlum vestanhafs að Mateen hafi keypt vopnin löglega í byssubúðinni St Lucie Shooting Center í Orlando.

„Vondur maður kom hér við og keypti tvö skotvopn á löglegan hátt,“ sagði eigandi búðarinnar, Ed Henson, á fréttamannafundi fyrir utan búðina í gær. „Hann stóðst bakgrunnsskoðun sem hver einn og einasti sem kaupir skotvopn í Flórídaríki þarf að gangast undir.“

Talið er að Mateen hafi keypt 9mm hálfsjálfvirka skammbyssu og 223 kalíbera AR-15-árásarriffil aðeins nokkrum dögum fyrir árásina. Hann hafði til þess lög­vernd­aðan rétt samkvæmt bandarísku stjórnarskránni.

Samkvæmt þeim lögum sem gilda í Flórída hefði Mateen getað tekið árásarriffilinn heim með sér sama dag og hann keypti hann. Hann hefði á hinn bóginn þurft að bíða í 72 klukkutíma eftir að fá skammbyssuna afhenta.

Það hefur vakið þó nokkra furðu og sætt mikilli gagnrýni, enda eru árásarrifflar taldir mun hættulegri og öflugri en venjulegar skammbyssur.

Mateen var vopnaður AR-15-árásarriffli.
Mateen var vopnaður AR-15-árásarriffli. AFP

Tvisvar til rannsóknar

Bandaríska alríkislögreglan hafði Mateen tvívegis til rannsóknar vegna mögulegra tengsla hans við hryðjuverkastarfsemi. Báðum rannsóknum lauk án kæru og var nafn hans jafnframt tekið af lista yfir hugsanlega hryðjuverkamenn.

En jafnvel þótt nafn hans hefði áfram verið á lista alríkislögreglunnar, þá hefði það ekki endilega komið í veg fyrir að hann gæti keypt skotvopnin sem hann notaði í árásinni á sunnudag. Meirihluti öldungadeildar Bandaríkjaþings greiddi í desember 2015 atkvæði gegn frumvarpi sem hefði meinað bæði þekktum og hugsanlegum hryðjuverkamönnum að kaupa skotvopn og sprengiefni.

Í Flórída þarf jafnframt enga sérstaka heimild til þess að eiga eða kaupa riffil, haglabyssu eða skammbyssu. Einungis þarf að fylla út eyðublað þar sem beðið er um persónuupplýsingar og greiða átta dali fyrir bakgrunnsskoðun. Þeir sem hafa verið sakfelldir fyrir glæpsamlegt athæfi standast sjaldnast skoðunina, að því er segir í fréttaskýringu Quartz.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert